Spánarferðir felldar niður - aflýst fyrir tvo milljarða

13.08.2020 - 19:00
Öllum flugferðum frá Íslandi til meginlands Spánar með íslenskum ferðaskrifstofum hefur verið aflýst frá 20. ágúst og fram í október. Stóru ferðaskrifstofurnar þrjár hafa aflýst ferðum að verðmæti tæpum tveimur milljörðum til þessa vegna COVID-19.

Sólarlandaferðir til Spánar hófust aftur um miðjan júlí eftir fjögurra mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins og að sögn Þráins Vigfússonar, framkvæmdastjóra ferðaskrifstofunnar Vita, var uppselt í ferðir til að byrja með. En eftir að faraldurinn tók sig upp að nýju séu Íslendingar hikandi við að ferðast þangað.

„Fólk er svona að halda að sér höndum með ferðalög og svona, það er óviss, það eru smit víða í Evrópu og fólk bara bíður, en við finnum fyrir miklum ferðavilja, þegar rétti tíminn kemur þá verður líklega holskefla af ferðalögum,“ segir hann.

Heimsferðir og Úrval Útsýn hafa einnig aflýst Spánarferðum sínum á sama tímabili. Spánn er það land í Evrópu sem kom einna verst út úr fyrri bylgju COVID-19. Útgöngubann var í landinu í um þrjá mánuði en því var aflétt í lok júní. Síðari bylgja faraldursins braust síðan út í júlí og fjölgar smitum nú dag frá degi. Grímuskylda er nú víða á Spáni og samkomutakmarkanir og í þeim héröðum þar sem ástandið er verst hafa verið settar á ferðatakmarkanir.

Nokkur lönd, svo sem Noregur og Bretland, tilkynntu í lok júlí um að farþegar frá Spáni yrðu að fara í 10 daga sóttkví við komu til landsins. Íslensk sóttvarnayfirvöld hafa ekki gefið út sérstakar ráðleggingar varðandi Spán aðrar en sem gilda um ferðalög til landa sem flokkast sem áhættusvæði, en það eru öll lönd í heiminum nema sex. 

Felldu niður ferðir fyrir tvo milljarða

Þrjár stærstu ferðaskrifstofurnar þrjár hafa samanlagt þurft að endurgreiða hátt í einn og hálfan milljarð vegna ferða sem felldar hafa verið niður vegna faraldursins, um og undir hálfan milljarð hver. Auk þess nema inneignir og ferðir sem hafa verið færðar um hálfum milljarði, samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdastjórum.

Heimsferðir höfðu áformað fjögur flug á viku til Spánar í september. Tómas Gestsson framkvæmdastjóri segir ástæðuna fyrir að þessar ferðir verði felldar niður vera að lítill áhugi sé á ferðum til Spánar vegna ástandsins þar en einnig setji fólk það fyrir sig að þurfa að fara í fimm daga sóttkví við heimkomu.

Heimsferðir hafa endurgreitt tvo þriðju af tæpum hálfum milljarði sem viðskiptavinir þeirra hafa farið fram á. Um 150 milljónir verði greiddar þegar félagið hafi fengið lán úr nýjum ferðaábyrgðasjóði sem það hafi sótt um.

Tómas segir um 70 prósent þeirra sem hafi ekki getað ferðast óska eftir endurgreiðslu en hinir ýmist inneign eða endurbókun síðar.Hlutfallið er svipað hjá hinum ferðaskrifstofunum.

Þórunn Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Úrvals Útsýnar sem einnig rekur Sumarferðir og Plúsferðir, segir félagið langt komið með endurgreiðslur en eitthvað sé þó enn útistandandi.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi