Segir eins metra regluna breyta töluverðu fyrir HR

13.08.2020 - 08:25
Mynd með færslu
Ari Kristinn Jónsson, rektor HR. Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Rektor Háskólans í Reykjavík fagnar nýjum reglum um eins metra fjarlægðarmörk í háskólum. Hann segir það breyta töluvert miklu fyrir skólastarfið.

Nýjar reglur taka gildi á miðnætti sem heimila að fjarlægðarmörk í framhaldsskólum og háskólum fari úr tveimur metrum í einn. Ari Kristinn Jónsson rektor Háskólans í Reykjavík segir þetta koma sér vel í skólastarfinu.

„Þetta breytir töluverðu fyrir okkur og er mjög jákvætt að þetta skuli hafa verið gert. Þetta þýðir það að fleiri nemendur geta verið á staðnum á hverjum tíma og það er nokkuð sem okkur er mjög umhugað um, þó það sé minna en það venjulega væri, að við getum þó sinnt nemendum á staðnum eins og kostur er.“
Voruð þið búin að búa ykkur undir tveggja metra bil?
„Já, við vorum búin að gera það og þess vegna sjáum við alveg skýrt hvað eins metra reglan breytir hjá okkur varðandi sveigjanleika með það að geta sinnt nemendum og geta kennt þeim á staðnum, þó í takmörkuðu máli sé.“

Ari Kristinn segir að mestu muni um að nú verður meira rými er til að koma fólk fyrir í kennslustofum í verklegum tímum, umræðu tímum  og dæma tímum og þess háttar. Engu að síður verður fjarkennsla meiri en við eðlilegar aðstæður.

„Það verður óhjákvæmilega hluti kennslunnar með stafrænni tækni og þá erum við að horfa fyrst og fremst til miðlunarhlutans; fyrirlestranna og annars slíks sem annað hvort verður streymt eða verður tekið upp og sett á netið og það er sá hluti sem að hefur minnst neikvæð áhrif á gæðin að sé settur á stafrænt form. Það hefur alltaf verið stór hluti af okkar starfi að vinna verkefni saman, að eiga umræður og samræður á milli nemenda og kennara og meðal nemenda. Og þessi sveigjanleiki sem þó er til staðar gerir okkur kleift að nýta þá takmörkuðu getu sem við höfum innanhúss til einmitt að sinna þessum þáttum sem allra best.“

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands segir á heimasíðu skólans að markmiðið sé að skipuleggja skólastarfið þannig að það haldist óslitið þrátt fyrir skyndilegar breytingar en einnig að það sé eins eðlilegt og kostur er. Þetta þýði að kennslan á haustönn verði skipulögð sem rafræn kennsla og geti með stuttum fyrirvara orðið að fullu rafræn breytist forsendur. Á sama tíma verði leitað leiða við að nýta skólastofurnar til staðkennslu eins og kostur er. 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi