
Rannsóknar krafist á breska lestarkerfinu
Farþegalest á leiðinni frá Aberdeen til Glasgow fór út af teinum í gærmorgun nærri bænum Stonehaven. Þrennt lést í slysinu, sex farþegar slösuðust auk fjögurra slökkviliðsmanna sem börðust við eld sem braust út við slysið.
Lögregla segir lán í óláni hve fáir voru í lestinni þegar slysið varð en ferðalög á þessum slóðum hafa verið takmörkuð vegna útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.
Grant Shapps flutningamálaráðherra Bretlands heimsótti slysstaðinn í dag og tjáði samúð sína vegna atburðarins. Hann kvað jarðvegshrun af einhverju tagi hafa getað orsakað að lestin fór út af teinunum en úrhellisrigning hefur verið á svæðinu. Auk þess verði kannað hve hratt lestin fór þegar slysið varð.
Shapps segist hafa fyrirskipað tafarlausa rannsókn á stöðu breska járnbrautakerfisins alls. Hann kveðst vilja fá skýrslu þess efnis afhenta ekki síðar en 1. september.
Í samtali við Sky-sjónvarpsstöðina segir ráðherrann nauðsynlegt að komast að því hvað olli þessu hræðilega slysi og draga lærdóm af því. Sérfræðingar hafa lengi kallað eftir að breska járnbrautakerfið verði tekið til gagngerrar endurnýjunar, bæði hvað snertir stundvísi og öryggi.
Nú væri meðal annars horft til hárra bakka meðfram lestarteinum en mögulegt er að mikil vatnsveður geti grafið undan þeim og valdið slysum líkt og varð í gær.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, Nicola Sturgeon fyrsti ráðherra Skotlands og Elísabet II hafa sent samúðarkveðjur vegna slyssins.