Rannsókn hafin á ferðaskrifstofunni Farvel

13.08.2020 - 02:16
Mynd með færslu
 Mynd: Magnús Atli Magnússon - RÚV
Lögreglurannsókn er hafin á því sem talið er saknæmt athæfi af ferðaskrifstofunni Farvel. Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Fyrirtækið var svipt starfsleyfi af Ferðamálastofu í desember í fyrra eftir að fyrirtækið hafði í rúmt ár hunsað kröfu um hækkaða tryggingu.

Tugir Íslendinga voru búnir að greiða inn á ferðir sem voru ekki farnar. Haft er eftir Eiríki Jónssyni, fyrrverandi formanni Kennarasambands Íslands, að hann viti af fjölskyldu sem millifærði um þrjár milljónir á ferðaskrifstofuna, en fékk aðeins um tíu prósent af því endurgreitt frá Ferðamálastofu. Sjálfur hafði Eiríkur greitt inn á ferð hjá Farvel með greiðslukorti, og fékk hana því endurgreidda að mestu. Hann telur athæfi Farvel saknæmt, þar sem kallað var eftir því að fólk greiddi inn á ferðir þegar ljóst var í hvað stefndi.

Eiríkur segir í samtali við Fréttablaðið að ósáttir viðskiptavinir hafi sent Umboðsmanni Alþingis erindi vegna linkindar Ferðamálastofu gagnvart Farvel. 76 kröfur bárust í tryggingasjóð Ferðamálastofu vegna Farvel, og var meðal endurgreiðsla um tíu prósent. 

Mælt með að greitt sé með greiðslukortum

Helena Þ. Karlsdóttir, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu, segir í samtali við Fréttablaðið að þetta sé eitt dæmi þess að stofnunin mælir með því að fólk greiði fyrir ferðir með greiðslukortum. Fréttablaðið spurði hana að því hvers vegna ekki hafi verið gripið fyrr inn í mál Farvel, og svaraði Helena því til að slíkar ákvarðanir taki sinn tíma í stjórnsýslunni. Þetta hafi verið öfgakennt dæmi og sjaldgæft að þannig viðskiptahættir séu viðhafðir. „Við teljum að þarna hafi saknæmt athæfi átt sér stað og bíðum nú niðurstöðu lögreglurannsóknar," hefur Fréttablaðið eftir Helenu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi