Nýtt frá Ólafi Arnalds ft JFDR, Sin Fang og Sólstöfum

Mynd: Sólstafir / Endless Twilight of Codependent

Nýtt frá Ólafi Arnalds ft JFDR, Sin Fang og Sólstöfum

13.08.2020 - 14:45

Höfundar

Undiraldan þennan fimmtudag endurspeglar heldur betur veðrið á suðvesturhorninu í þetta skiptið en það hefur ekki verið neitt sérstaklega skemmtilegt í ágúst. Það er sem sagt boðið upp á dökkan dumbung og djöfullegt drama í tónlistinni og túristinn er pottþétt alveg vitlaus í þetta.

Dady, Helgi B & Svala Björgvins - Voulez Vous

Voulez Vous er tekið upp í Kaupmannahöfn og Reykjavík af Dady sem er tónlistarmaður úr Mosfellsbæ og hefur gefið út plöturnar Klámstjarna og Hrjúft silki - með hljómsveit sinni SAMA-SEM. Lagið fjallar um fyrstu skref ástarsambands þar sem spurt er - hvers vegna að vera einmana þegar maður getur verið saman?


Ólafur Arnalds ft JFDR - Back To the Sky

Nú hefur Ólafur Arnalds látið gamlan draum rætast með því að vinna lag með tónlistarkonunni Jófríði Ákadóttur. Lagið kom út þann sjötta ágúst og hefur þegar fengið nokkur hundruð þúsund streymi á YouTube og Spotify eins og vaninn er hjá Ólafi. Myndbandið er gert af þeim Árna og Kinski.


Sin Fang - Good Heart

Sindri Már Sigfússon hefur sent frá sér lag af nýrri plötu undir nafninu Sin Fang, The Last Shall Be First, en platan kemur út 14. ágúst og inniheldur einnig nýlegt samstarf hans við tónlistarkonuna Jófríði Ákadóttir.


Hrím - Ástarnetið

Hljómsveitin Hrím hefur sent frá sér lagið Ástarnetið en það er endurgerð af endurgerð - af lagi Aspar Eldjárn sem kom út á sólóplötu hennar, Tales from a Poplar Tree, árið 2017 og með Hrím í fyrra. Það er samið við ljóð Páls Ólafssonar skálds, sem orti yfir 500 ástarljóð til konu sinnar Ragnhildar Björnsdóttur.


Vala - Dulúð fylgir dögun

Tónlistar- og dagskrárgerðarkonan knáa af FM 957 Valdís Eiríksdóttir hefur sent frá sér lagið Dulúð fylgir dögun, undir nafninu Vala en lagið vinnur hún með Stefáni Erni Gunnlaugssyni.


Sólstafir - Akkeri

Hljómsveitin Sólstafir ætla að senda frá sér breiðskífuna Endless Twilight of Codependent Love seinna á árinu og hafa af því tilefni sent frá sér lagið Akkeri sem er 10 mínútna ópus sem hljómar eins og Sólstafir.