Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Mikill munur á verði og gæðum andlistgríma

13.08.2020 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Dýrustu andlistgrímurnar eru í Eirbergi en þær ódýrustu í Costco samkvæmt könnun verðlagseftirlits ASÍ. Verð á þriggja laga einnota andlitsgrímum var kannað í fjölda verslana, netverslana, matvöruverslana og apóteka og verðmunurinn er mikill. Vakin er athygli á því að ekki er lagt mat á gæði þeirra gríma sem nefndar eru í könnuninni.

Lægsta stykkjaverðið á andlitsgrímum í könnun ASÍ var 42 krónur í Costco eða 2.089 krónur fyrir pakka með 50 grímum. Hæsta stykkjaverðið var í Eirbergi, 298 krónur gríman eða 5.950 krónur fyrir pakka með 20 grímum. Þá var Lyf og heilsa með lægsta einingaverð þeirra apóteka sem eru á lista ASÍ en Lyfja með það hæsta.

Lægsta verðið á andlitsgrímum sem seldar voru í stykkjatali var í Krambúðinni, 49 krónur stykkið en það hæsta í Lyfju, 209 krónur stykkið.

Nánari útlistun á verði eftir verslunum má finna á vef ASÍ.

Grímurnar sem voru til skoðunar í könnuninni voru allar þriggja laga og einnota en eru frá mismunandi framleiðendum og því ekki endilega eins.

Fjöldi gríma tekinn úr umferð

Neytendastofa sér um eftirlit með andlitsgrímum og kemur fram í tilkynningu ASÍ að stofnunin hafi orðið vör við að gæðum á andlitsgrímum sé í sumum tilfellum ábótavant. Töluvert magn af grímum hefur verið tekið úr umferð vegna þess. 

 

Kannað var verð á einnota þriggja laga andlitsgrímum hjá eftirtöldum söluaðilum: Costco, Krambúðinni Laugalæk, Fjarðarkaupum, Bónus, Krónunni, Nettó, Hagkaupum, Lyf og heilsu, Lyfju, Lyfsalanum, Lyfjavali, Reykjavíkurapóteki, Apótekaranum, Múlalundi, Partývörum, Wurth, LedTec.is, Pollyanna.is, Flugubullan.is, Smartsocks.is, Varnir.is, Málningarvörum, , Emobi.is, Smart Boutique, Eirberg, Kemi.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða en ekki var lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Könnunin er ekki tæmandi og getur verið að hún nái ekki til allra þeirra aðila á markaði sem selja andlitsgrímur.