Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggst gegn aukafjárveitingu til póstþjónustu

13.08.2020 - 21:34
epa08575571 US President Donald Trump speaks at a news conference at the White House in Washington, DC, USA, 30 July 30 2020.  EPA-EFE/YURI GRIPAS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ABACA
Donald Trump Bandaríkjaforseti viðurkenndi í dag að hann legðist gegn auknum fjárveitingum til póstþjónustu landsins (USPS) í aðdraganda forsetakosninga til þess að gera kjósendum erfiðara fyrir að senda atkvæði með pósti.

Sökum kórónuveirufaraldursins er búist við að mun stærri hluti kjósenda sendi atkvæði sín með pósti en venjulega, til þess að sleppa við að mæta á kjörstað. Sum ríkjanna hafa lýst því yfir að sárlega vanti fjármagn til að standa að slíkri atkvæðagreiðslu. 

Ummæli forsetans renna stoðum undir þær tilgátur að hann leggi sig fram um að fækka utankjörfundaratkvæðum vegna þess að hann telji kjósendur sem sendi atkvæði sín með pósti líklegri til að kjósa mótframbjóðanda hans, Joe Biden. Forsetinn hefur fullyrt, án röksemda, að aðsend atkvæði ýti undir kosningasvindl og vonast til þess að með því að koma í veg fyrir aukafjárveitingu til póstþjónustunnar verði atkvæðagreiðsla ekki möguleg með þeim hætti.

Breska ríkisútvarpið hefur eftir talsmanni Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, að aðför forsetans sé árás á lýðræðið. Hann vilji rífa niður sjálfsagða þjónustu fyrir hundruð milljóna Bandaríkjamanna. „Þannig stefnir hann strjálbýlum samfélögum í hættu og hamlar til dæmis flutningi á lyfjum. Allt vegna þess að hann vill svipta þjóðina réttinum til að kjósa með öruggum hætti,“ segir hann. „Þetta er árás á lýðræðið og hagkerfið.“

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV