Mikil öryggisgæsla var við dómshúsið þar sem dauðadómur var kveðinn upp yfir Mohamed Morsi, fyrrverandi forseta. Mynd: EPA
Essam al-Erian áður háttsettur leiðtogi Múslímska bræðralagsins lést í dag í egypsku fangelsi. Hann var 66 ára, banamein hans er sagt vera hjartaáfall en hann átti að sitja af sér 150 ára dóm fyrir margvísleg brot.
Múslímska bræðralagið eru alþjóðasamtök súnní-múslíma sem stofnuð voru í Egyptalandi árið 1928 af kennaranum Hassan al-Banna.
Essam al-Erian var handtekinn 2013 eftir að herráð Egyptalands steypti Múhameð Morsi forseta landsins af stóli. Morsi komst til valda eftir egypsku byltinguna 2011 en lést á meðan réttarhöld stóðu yfir gegn honum í júní 2019. Erian var varaforseti Frelsis- og réttlætisflokksins, stjórnmálaarms bræðralagsins og ráðgjafi Morsi forseta.
Flokkurinn, líkt og bræðralagið, er nú bannaður í Egyptalandi. Bræðralag múslíma hefur nú stöðu hryðjuverkasamtaka þar í landi, en leiðtogar þess hafna alfarið slíkum ásökunum.