Handteknir fyrir að selja klór gegn COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: webmd
Sjálfskipaður erkibiskup sértrúarsöfnuðar í Flórída var handtekinn í Kólumbíu að beiðni bandarískra yfirvalda. Hann seldi fólki klór á þeim forsendum að efnið væri kraftaverkameðal gegn COVID-19. Sonur hans var einnig handtekinn, og er búist við því að þeir verði framseldir til Bandaríkjanna á næstunni. Ríkissaksóknari í Kólumbíu sagði meðal feðganna hafa orðið sjö Bandaríkjamönnum að bana.

Mark Grenon var ákærður af yfirvöldum í Flórída fyrir að selja klórinn. Þrír synir hans eru einnig ákærðir fyrir sinn hlut í málinu. Þeir vilja meina að það geti verið nánast allra meina bót að blanda klórdíoxíði út í vatn eða annan vökva. Til að mynda vinni það bug á COVID-19, krabbameini, HIV og eyðni auk einhverfu. Guardian greindi frá því í apríl að Grenon hafi sent Donald Trump Bandaríkjaforseta bréf um gæði vöru sinnar. Nokkrum dögum síðar spurði Trump sérfræðinga sína á blaðamannafundi hvort það væri hentug leið að sigrast á kórónuveirunni sem veldur COVID-19 að dæla sótthreinsiefnum í líkamann.

Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna hefur gefið út viðvörun um neyslu klórs og sams konar efna. Margar ábendingar hafi borist stofnuninni um sölu slíkra efna sem lækningu, en stórhættulegt sé að innbyrða slík efni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi