Gerðu athugasemdir við sóttvarnir hjá yfir 50 stöðum

13.08.2020 - 13:55
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur heimsótt um hundrað veitinga- og skemmtistaði undanfarna viku. Sóttvörnum hefur verið ábótavant hjá yfir helmingi þeirra. Varðstjóri hjá lögreglunni segir að oft sé það vegna misskilnings varðandi tveggja metra reglu. 

„Það er allur gangur á því hvort þetta séu kaffihús, veitingahús, vínveitingahús eða barir eða aðrir samkomustaðir, matsölustaðir eða skyndibitastaðir,“ segir Helgi Tulinius, varðstjóri hjá lögreglunni. Hann fer nú á hverju kvöldi við annan mann í eftirlitsferðir á veitingastaði, skemmtistaði og aðra samkomustaði í Reykjavík, til að athuga hvort nægar sóttvarnaráðstafanir hafi verið gerðar. Hann segir að tveggja metra reglan virðist oft misskiljast hjá veitingamönnum. 

Ættu að mæla fjarlægð milli gesta en ekki á milli borða

„Menn mæla borð í borð. En þegar að það er fólk sem situr beggja vegna við borðin, þá eru þessir tveir metrar sem eru á milli borðanna orðnir kannski að metra eða rétt rúmlega metra milli fólksins sem að situr við borðin. Þannig að við erum að leiðbeina fólki þar sem að við sjáum að það eru minna en tveir metrar á milli þar sem eru stólar bak í bak, að færa borðin lengra í sundur,“ segir Helgi.

Telja sóttvarnarlög hafa verið brotin á sex stöðum

Í fyrrakvöld var einum stað lokað til að hægt væri að koma sóttvörnum í lag. Helgi segir að um hundrað staðir hafi verið heimsóttir undanfarna viku. „Af því er svona kannski rúmlega helmingur þar sem við höfum þurft að biðja fólk um að huga betur að þeim ráðstöfunum sem hafa verið gerðar, en þó ekki á þann hátt að það sé brotalöm þar á,“ segir Helgi. „Við höfum nú þegar ritað sex skýrslur þar sem að við teljum að um brot sé að ræða, á tveggja metra reglunni eða öðrum sóttvörnum sem á að hafa uppi, og í einu tilviki af því höfum við þurft að loka stað.“ Það sé gert þegar ekki er talið mögulegt að bæta úr sóttvörnum með gesti inni á staðnum. Daginn eftir megi opna staðinn á ný, svo framarlega sem sóttvarnir séu í lagi.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi