Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fundað á ný í Herjólfsdeilu

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV
Samninganefndir Sjómannafélags Íslands og Herjólfs ohf. hittust á samningafundi í morgun. Jónas Garðarsson, formaður samninganefndar Sjómannafélagsins, staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

„Við ætl­um að hitt­ast aft­ur á þriðju­dag­inn,“ segir hann og kveður samninganefndirnar ætla að skiptast á gögnum þangað til.

Mbl.is greindi fyrst frá að viðræður væru hafnar á ný.

Fréttastofa greindi frá því á þriðjudag að engir fundir hefðu verið hjá deiluaðilum frá því að verkfalli félagsmanna var aflýst 20. júlí en þá náðist samkomulag um að hefja viðræðuáætlun um gerð nýs kjarasamnings undirmanna um borð í Herjólfi. Þeim viðræðum átti að vera lokið næsta mánudag, 17. ágúst og má telja ljóst að það standist ekki.

Jónas segist ekkert frekar eiga von á að deilan leysist eftir helgina. „Það kemur bara í ljós,“ segir hann og kveður sumarfrí hafa valdið töfunum sem orðið hafa á viðræðum.