Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flestir nota ferðagjöfina á höfuðborgarsvæðinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson - RÚV
Hátt í 140 þúsund manns hafa nú sótt ferðagjöf stjórnvalda og hefur meirihluti þeirra sem búinn er að sækja gjöfina nýtt hana að hluta eða fullu. Flestir hafa nytt gjöfina á höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu höfðu 136.946 sótt gjöfina í lok dags í gær og var þá búið að nýta 54%, eða 85.132 gjafir að hluta eða fullu en heildarupphæð nýttra gjafa nemur nú 369.517.444 kr.

Fyrir þremur vikum síðan höfðu rúmlega hundrað þúsund Íslendingar sótt ferðagjöfina og 45 þúsund voru búin að nýta hana.

Þegar hlutfallsleg skipting milli landsvæða er skoðuðu á Mælaborði ferðaþjónustunnar sést að mikill meirihluti hefur verið innleystur á höfuðborgarsvæðinu. Hafa gjafir fyrir um 92 milljónir verið innleystar þar. Á Suðurlandi hafa verið innleystar gjafir fyrir um 56 milljónir, fyrir 48 milljónir á Norðurlandi eystra, fyrir 35 milljónir á Austurlandi og fyrir 30 milljónir á Vesturlandi svo dæmi séu tekin. 71 milljón hafa svo verið innleystar hjá landsdekkandi fyrirtækjum.

Flyover Iceland vinsælasti afreyingakosturinn

Einn vinsælasti kosturinn virðist vera að nýta ferðagjöfina til að greiða inn á gistingu og hefur jafngildi um 7.000 ferðagjafa verið nýttar hjá Íslandshótelum og hótelum Icelandair, en alls hafa 124 milljónir verið greiddar inn á gistingu.

111 milljónir hafa verið nýttar í afþreyingu. Flyover Iceland virðist vera vinsælasti kosturinn, en 17 milljónir hafa verið greiddar fyrir upplifunarsýningu fyrirtækisins sem jafngildir því að 3.400 hafi nýtt þennan kost. Jafngildi 2.800 ferðagjafa hafa þá verið nýttar í Bláa lóninu, 1.400 í Vök náttúrulaugum við Urriðavatni og 1.200 við Jökulsárlón.

Þá hafa 102 milljón hafa þá verið greiddar til veitingastaða og vekur pitsaást landans nokkra athygli, en 5 milljónir, eða jafngildi 1.000 ferðagjafa hafa verið nýttar á pitsastöðum Dominos.

Allir sem hafa lögheimili á Íslandi og eru fæddir árið 2002 eða fyrr eiga kost á að nýta ferðagjöfina, sem er liður í aðgerðum stjórnvalda til að styðja við ferðaþjónustu á Íslandi.

 

Mælaborð ferðaþjónustunnar
 Mynd: Mælaborð ferðaþjónustunnar