Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fimmtíu þúsund manns án hitaveitu í næstu viku

13.08.2020 - 20:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekkert heitt vatn verður á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins í 30 klukkustundir í næstu viku vegna framkvæmda hjá Veitum. Það hefur áhrif á 50 þúsund manns. Við Rauðavatn við gatnamót Suðurlandsvegar og Breiðholtsbrautar þarf að tengja nýja stofnlögn hitaveitunnar.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir í viðtali í sjónvarpsfréttum að heitu vatni eigi að veita úr virkjunum til nýrra hverfa til að létta á álaginu á borholum í Mosfellsbæ og Reykjavík. 

Loka þarf fyrir heitavatnið frá klukkan tvö aðfaranótt þriðjudags til klukkan níu á miðvikudagsmorgun á mjög stóru svæði. 

  • Þetta á við um allan Hafnarfjörð. 
  • Í Garðabæ verður lokað í Urriðaholti, Kauptúni og Suður-, Austur-, Norður- og Miðhraunum. En líka í götum sem endar á -lundur og í Holtsbúð. 
  • Í Kópavogi verður heitavatnslaust í stærstum hluta Lindahverfisins og í Salahverfinu. 
  • Og líka á Vatnsenda í kórum, þingum og hvörfum. 
  • Og í Reykjavík verður ekkert heitt vatn á Norðlingaholti. 

Ólöf segir að Veitur hafi kynnt lokunina mjög vel. Fyrir nokkrum vikum voru fyrirtæki og stofnanir látin vita, til dæmis hjúkrunarheimili, sundlaugar, hárgreiðslustofur og matvælaframleiðendur. 

Lokunin er með þeir stærri sem Orkuveitan hefur tilkynnt um og gert er ráð fyrir að sums staðar þurfi að gera hlé á starfsemi og framleiðslu. 

Ólöf segir að fólk komist ekki í sturtu á meðan á lokununni standi. „En við bendum náttúrulega á að það eru kannski sundlaugar og líkamsræktarstöðvar opnar í hverfum sem ekki verða fyrir þessari lokun,“ segir hún. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV