Endurnýjanlegir orkugjafar í vexti

13.08.2020 - 00:48
epa04949959 Large wind turbines stand on the hill, part of a large wind farm being built near Ardmore, Oklahoma, USA, 25 September 2015. Wind farms are being built in Oklahoma, Texas, and Kansas to produce electricity.  EPA/LARRY W. SMITH
 Mynd: EPA
Vind- og sólarorka sá fyrir tíu prósentum af öllu rafmagni heimsins á fyrri helmingi ársins. Á sama tíma minnkaði orkuvinnsla úr kolum um 8,3 prósent miðað við sama tíma í fyrra. 

Þrátt fyrir að rafmagnsþörf hafi hrunið á fyrri helmingi ársins vegna heimsfaraldursins, jókst rafmagnsframleiðsla úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Hún var 1.129 terawatt-stundir á fyrri helmingi ársins, en 992 terawatt-stundir á sama tíma í fyrra. Hlutfall sólar- og vindorku við raforkuvinnslu hefur rúmlega tvöfaldast frá árinu 2015, þegar Parísarsáttmálinn um loftslagsbreytingar var undirritaður.

Minni kolanotkun vegna kórónuveirufaraldursins

Sérfræðingahópurinn Ember greindi gögnin og birti niðurstöðurnar. AFP fréttastofan hefur eftir Dave Jones, raforkusérfræðingi hjá Ember, að um 30 prósent minnkunarinnar á notkun kolaorku við rafmagnsframleiðslu megi rekja til aukningar á vind- og sólarorku. Afganginn má rekja til kórónuveirufaraldursins. Þó minnkunin á notkun kolaorku sé ánægjuleg, sé hún ekki nógu hröð til þess að koma í veg fyrir hlýnun jarðar að sögn Jones.

Samkvæmt Parísarsáttmálanum skuldbundu ríki sig til þess að koma í veg fyrir að meðalhitastig jarðar hækki um tvær gráður frá meðaltalinu fyrir iðnbyltinguna. Helst á að koma í veg fyrir að hitinn hækki um 1,5 gráður. Alþjóðanefnd um loftslagsmál segir kolaorku þurfa að minnka um 13 prósent á hverju ári til ársins 2030 til þess að halda markmiðinu.

Hæst hlutfall hjá Bretum og ESB-ríkjum

Samkvæmt úttekt Ember framleiddu mörg stór efnahagsveldi yfir tíu prósent rafmagns með vind- eða sólarorku. Þeirra á meðal voru Kína, Bandaríkin, Indland, Japan, Brasilía og Tyrkland. Bretum og Evrópusambandinu er sérstaklega hrósað, en Bretar framleiddu um fimmtung rafmagns með endurnýjanlegum orkugjöfum og Evrópusambandsríkin samanlagt um þriðjung.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi