Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Bíða þess um borð að hafa siglt í fjórtán daga

13.08.2020 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Menntaskólanemar frá Öckerö í Svíþjóð bíða þess nú um borð í skútunni Gunillu rétt fyrir utan Reykjavíkurhöfn að fjórtándi dagur siglingarinnar til landsins líði. Þá hafa þau í raun verið í fjórtán daga sóttkví um borð og stíga loks í land.

Nína Dögg Geirlaugsdóttir, íslenskur nemi við Öckerö-menntaskólann og bátsverji, segir í samtali við fréttastofu að hópurinn hafi lent í ýmsum ævintýrum á leiðinni til Íslands en þó hlakki hún mikið til að komast í land. Hún segir að ferðin sé námsferð: „Við höfum fengið að læra á skútuna, fengum til dæmis að prófa að stýra henni.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þau sigldu meðfram norðanverðu landinu til að lengja siglingarleiðina. „Við höfum séð stórbrotna náttúru, fengum til dæmis prívat hvalaskoðun við Húsavík og Bolungarvík. Við vorum bara nánast við hliðina á hvölunum og stoppuðum til að skoða,“ segir Nína.

Um borð eru 38 nemendur auk nokkurra kennara og starfsfólks á skútunni. Nína segir að þau sýni fyllstu smitgát: „Við hugsum vel um hvernig við göngum um bátinn og erum með tóm herbergi ef einhver skyldi veikjast. Svo notum við mikið spritt og þvoum hendur vel og reynum að halda fjarlægð.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Kíkja aðeins á Guðna

Aðspurð hvað hópurinn sjái fyrir sér að gera á Íslandi segir hún þau eiga fund með forseta Íslands: „Við erum að fara að hitta Guðna. Ætlum að kíkja aðeins á hann. Ég hef ekki hitt hann áður,“ segir hún. Þá ætla þau að skoða Gullfoss og Geysi og keyra um landið. Sumir ætla á hestbak og aðrir eru spenntastir fyrir jöklunum.

Eftir fjórtán daga siglingu segir Nína flesta félaga sína hafa vanist siglingunni: „Jú, sumir urðu sjóveikir, en það venst,“ segir hún.

Öruggasta leiðin að sigla í fjórtán daga

Hópurinn stoppar hér á landi í sex daga og að sögn Önnu Ågren, kennara um borð, var fjórtán daga sigling eina örugga leiðin til að geta varið sex dögum á Íslandi án þess að þurfa að halda sig til hlés vegna smithættu. Þau fara sérlega varlega; voru í sóttkví í viku áður en þau lögðu af stað og allir ferðalangarnir voru skimaðir áður en skútan sigldi af stað. Á morgun hafa þau svo verið í einskonar sóttkví í fjórtán daga um borð. 

„Það var okkar ákvörðun að gera þetta svona, allt hefur gengið vel og við höfum séð ótal náttúruperlur,“ segir Anna. Skipið hefur siglt með menntaskólanemendur undanfarin 20 ár, um Atlantshafið, Miðjarðarhafið og Karabíska hafið. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV