Hraðmót MLS-deildarinnar kláraðist nýlega á svæði Disney World-skemmtigarðsins í Flórída en hefðbundið tímabil deildarinnar er komið af stað. Áhorfendur eru leyfðir á vissum leikvöngum og voru þeir þónokkrir í Dallas í gærkvöld.
Leikmenn beggja liða krupu á hné þegar bandaríski þjóðsöngurinn var spilaður fyrir leik gærkvöldsins við slæmar viðtökur stuðningsmanna í stúkunni sem bauluðu á leikmenn liðanna.
Ready.#ComeBackStronger pic.twitter.com/blehVQBdZO
— FC Dallas (@FCDallas) August 13, 2020
„Hversu skammarlegt er þetta?“ spurði Reggie Cannon, varnamaður Dallas í viðtali eftir leik.
„Maður getur ekki einu sinni hlotið stuðning eigin aðdáenda á heimavelli,“ hefur ESPN eftir Cannon. „Það er mér óskiljanlegt,“.
„Við sem lið reynum að gera okkar besta á vellinum og undanfarnir sex mánuðir hafa verið algjört helvíti fyrir okkur.“ segir Cannon enn fremur sem bjóst við betri móttökum stuðningsmanna þar sem Dallas var að leika sinn fyrsta leik í tæpt hálft ár.
Dallas og Nashville voru að spila sinn fyrsta leik frá því mars þar sem hvorugt liðanna gat tekið þátt í hraðmótinu í Flórída eftir að COVID-tilfelli greindust innan leikmannahópa þeirra. Leikmenn liðanna vildu því fylgja eftir fordæmi annarra liða í deildinni sem höfðu sýnt baráttunni samstöðu fyrir fyrsta leik mótsins í Flórída.
Þá komu leikmenn úr öllum liðum deildarinnar saman og krupu ýmist á hné eða reistu hnefa á meðan þeir höfðu þögn í átta mínútur og 46 sekúndur. Tímalengdin er vísun í morðs á George Floyd, sem lést eftir að lögreglumaðurinn Derek Chauvin þrýsti hné sínu á háls Floyd í átta mínútur og 46 sekúndur sem varð honum að bana 25. maí síðastliðinn.