Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Allir nemar HÍ fái staðkennslu að einhverju marki

13.08.2020 - 07:50
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Leitast verður við að allir nemendur við Háskóla Íslands fái staðkennslu að einhverju marki á haustmisseri. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Jón Atli Benediktsson, rektor skólans, sendi starfsfólki og nemendum í gær. Þar segir jafnframt að kennsla við Háskóla Íslands í haust verði skipulögð sem rafræn kennsla og geti með stuttum fyrirvara orðið að fullu rafræn ef þörf krefur.

„Á sama tíma verður leitað leiða við að nýta stofur skólans til staðkennslu eftir því sem kostur er miðað við aðstæður,“ segir í tilkynningunni. 

Í gær tilkynntu stjórnvöld um tilslakanir á nándarreglum í framhaldsskólum og háskólum. Þar verður miðað við eins metra fjarlægð milli einstaklinga, í stað tveggja. Reglurnar gilda í tvær vikur. 

Í tilkynningu rektors segir að þarfir nýnema verði settar í forgang við skipulagningu staðkennslu og úthlutun stofurýmis. Lagt er kapp á að allir nemar skólans njóti staðkennslu að einhverju marki, til dæmis í formi umræðutíma, verklegrar kennslu eða klínískrar kennslu. Hver námsbraut, deild eða fræðasvið sér um nánara skipulag staðkennslu.

Fyrirlestrum sem fram fara í stofum skólans verður streymt eða þeir teknir upp eftir því sem kostur er.