Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aldrei hærra hlutfall þeirra sem kaupa fyrstu eign

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Aldrei hefur hlutfall kaupenda fyrstu íbúðar verið jafnhátt og nú, samkvæmt nýjum tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Fjórði hver sem býr í foreldrahúsum segist vera að íhuga að kaupa sér íbúð á næstu sex mánuðum.

 

Í nýrri skýrslu HMS kemur fram að tæplega þriðjungur þeirra sem keyptu fasteign á fyrri helmingi þessa árs voru að kaupa sína fyrstu eign. Til samanburðar voru fyrstu kaupendur undir tíu prósentum kaupenda á árunum eftir hrun en hlutfallið hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Ólafur Sindri Helgason, aðalhagfræðingur HMS, segir eðlilegt að hlutfall fyrstu kaupenda aukist í takt við hagsveifluna sem hafi verið á uppleið frá 2010.

„En það sem er kannski fyrst og fremst að keyra þetta áfram núna, þar sem hagsveiflan hefur farið niður á við eru þessir lágu vextir sem eru í boði núna og aukið veðrými heimilanna hefur gert foreldrum kleift að taka lán og lána afkvæmum sínum fyrir útborgun í fyrstu íbúð,“ segir Ólafur Sindri.

Einnig sé nú heimilt að taka út séreignalífeyrissparnað sem auðveldi fólki að eiga fyrir útborgun. Í könnun sem HMS lét gera í júlí kemur fram segist einn af hverjum fjórum þeirra sem búa í foreldrahúsum vera í fasteignahugleiðingum, en það er meira en tvöfalt hærra hlutfall en í byrjun árs. Einnig kemur fram að nokuð hátt hlutfall leigjenda virðist vera að íhuga að kaupa sér húsnæði á næstu sex mánuðum, um einn af hverjum tíu.

Í skýrslu HMS kemur einnig fram að óvenjumikil umsvif hafi verið á fasteignamarkaði í sumar og methreyfing í júlí sem venjulega er einn rólegasti mánuður ársins. Ólafur segir lágir vextir og heimild til úttektar séreignasparnaðar sé helsta skýringin. Hann segir það kom á óvart að COVID hafi ekki haft meiri neikvæð áhrif á fasteignamarkaðinn en útlit er fyrir. Ástæðan sé líklega að efnahagssamdrátturinn sé ekki kominn fram hjá heimilunum og þau hafi einnig meira milli handanna vegna minni útgjalda,     svo sem vegna dýrra utanlandsferða.