Unnið að því að Evrópuleikir Vals verði í Danmörku

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Unnið að því að Evrópuleikir Vals verði í Danmörku

12.08.2020 - 18:45
Valsmenn vinna nú hörðum höndum að því að leika báða sína leiki á móti Team Tvis Holstebro í 1. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í handbolta í Danmörku. Ekki er þó kominn staðfest dagsetning á leikina.

Keppni í Olís-deildunum í handbolta hefst ekki fyrr en 10. september. Samkvæmt upplýsingum RÚV sendu forsvarsmenn HSÍ og KKÍ í sameiningu frá sér lista til ÍSÍ og til yfirvalda með það að markmiði að meistaraflokkar og elstu flokkar barna í handbolta og körfubolta geti hafið æfingar með eðlilegum hætti á föstudag og hægt verði að spila leiki að uppfylltum sóttvarnarreglum.

Styttra er hins vegar í Evrópuleiki Vals. Gert er ráð fyrir því að spilað sé heima og að heiman í forkeppni Evrópudeildarinnar í handbolta, en ekki bara spilaður einn leikur eins og ákveðið var að gera í Evrópukeppnunum í fótbolta í ljósi kórónuveirunnar. Snorri Steinn Guðjónsson þjálfari Vals sagði í samtali við RÚV að Valur og Holstebro ynnu nú að því í sameiningu að báðir leikirnir í þeirra einvígi yrðu spilaðir í Danmörku. Það væri þó ekki komin niðurstaða hvenær leikirnir yrðu spilaðir. Það verði þó í lok ágúst eða í byrjun september.