Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þú ert búinn að vera í tjóni í langan tíma“

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

„Þú ert búinn að vera í tjóni í langan tíma“

12.08.2020 - 13:53

Höfundar

„Við vinnum eiginlega ekki lengur við að halda viðburði, heldur bara færa, aflýsa og endurgreiða,“ segir Ísleifur Þórhallsson hjá viðburðafyrirtækinu Senu. Síðan COVID-19 skall á heimsbyggðinni hefur hann þurft að fresta eða aflýsa 35 viðburðum.

Ísleifur ræddi erfiða stöðu í viðburðabransanum í Morgunútvarpinu en Sena skipuleggur ekki bara tónleika og uppistand heldur einnig ráðstefnur, hvataferðir og árshátíðir fyrirtækja. „Við ætluðum að mæta eftir sumarfrí og hafa nóg að gera út árið eins og flestir,“ segir Ísleifur. „Ég held flestir hafi hugsað þetta þannig við værum í beinni línu upp, þar sem alltaf væri losað meira og meira um hömlur. Leikhúsin voru að fara af stað, Harpa fullbókuð út árið, held allir hafi hugsað að það væri hægt að bjarga sér.“ 

Svo hafi auðvitað allt annað komið á daginn. „Við vorum í 500 manns og engin hörð tveggja metra regla, og þú getur gert ansi mikið í því.“ Til að mynda hafi Sena verið farin að teikna upp 7000 manna tónleika stórtenórsins Andrea Boccelli í Kórnum í október með ellefu mismunandi sóttvarnasvæðum. „Það er erfitt en framkvæmanlegt, að vera með aðskilda innganga, útganga, bari og klósett. Og það er ekkert mál að skipta Eldborg upp í þrjú svæði, við vorum nýbúin að fylla ferna tónleika með Björk,“ segir Ísleifur en þrennum af þeim tónleikum hefur nú verið frestað fram í september.

Mynd með færslu
 Mynd: Santiago Felipe - Björk
Fresta þurfti þrennum tónleikum Bjarkar sem áttu að vera í ágúst fram í september.

Munurinn milli 500 manna samkomubanns og 100 manna og harðrar tveggja metra reglu sé hins vegar himinn og haf. „Þá er orðið mjög erfitt að halda viðburði sem er séns á að standi undir sér.“ Hörð tveggja metra regla geri það að verkum að salir taki við einungis um 10% af þeim fólksfjölda sem þeir geri venjulega, 1500 manna Eldborgarsalur fari í 150, 1000 manna Háskólabíó fer í 90. 3000 manna sitjandi Laugardalshöll fer í 300. „Fyrir utan hvað það yrði glötuð stemning,“ segir Ísleifur. „Þetta í raun og veru þýðir að það er mjög lítið hægt að gera.“

Þurfa alltaf að reikna með því versta

Það sem sé einna verst sé svo óvissan. „Við erum svona upp og niður, upp og niður, upp og niður. Við þurfum þá alltaf að miða við verstu mögulegu niðurstöðu. Þetta gerðist mjög hratt síðast, þau voru farin að gefa þetta til kynna á miðvikudegi, þetta var kynnt á fimmtudegi og komið í gang á föstudegi, allt fyrir verslunarmannahelgi. Þannig á tveimur sólarhringum pompar þetta úr viðráðanlegu ástandi í alveg óviðráðanlegt. Öll leikhúsin, viðburðahaldarar, Harpa, þau þurfa þá alltaf að miða öll plön við að ástandið gætið farið fyrirvaralaust í 100 manna samkomubann og harða tveggja metra reglu.“

Ísleifur tekur þó fram að hann sé ekki að kenna neinum um nema veirunni og hann hafi verið meira og minna sammála þeim aðgerðum sem hafi verið gripið til fram að þessu. „En við virðumst komin núna að vendipunkti í þessu, þar sem þarf að taka erfiðar pólitískar ákvarðanir. Manni finnst eins og það sé erfitt að tala um ásættanlega áhættu, að hafa smá vírus. Eins og það hafi ekki gengið upp.“

Passa upp á innviðina í menningargeiranum

Ísleifur segir ástandið í sínum bransa komið að þolmörkum. „Fyrir marga er þetta erfiðara en nokkru sinni fyrr. Það eru allir laskaðir fyrir. Þú ert búinn að vera í tjóni í langan tíma.“ Þá sé lítil huggun að horfi til bjartari vegar akkúrat núna. „Því það hefur enga raunverulega þýðingu, því hversu líklegt er að það fari til baka? Það verður að vera hægt að gera plön, að áætlanir fram í tímann haldi.“ Bransinn hafi í raun aldrei verið auðveldur, oft þurfi að selja 80-90% miða til að ná núllpunkti.

Hræðist hann þá að eftir að ástandið ríður yfir muni fólk breyta hegðun sinni, óttast margmenni og hætta að mæta á sveitta rokktónleika? „Ég er á því núna að fólk verði til í þetta sem aldrei fyrr. Það verður uppsafnaður þorsti,“ segir Ísleifur sem reynir að vera bjartsýnn. „Ég held að loksins þegar þetta klárast verði sprengja sem aldrei fyrr. En við þurfum að þrauka þangað til og passa upp á að innviðirnir í menningargeiranum skemmist ekki.“

Hulda Geirsdóttir og Sigmar Guðmundsson ræddu við Ísleif Þórhallsson í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Tónlist

Óvíst hvort að Iceland Airwaves fari fram

Menningarefni

Hörð tveggja metra regla hálfgerður dauðadómur

Tónlist

„Sama hvað gerist þá verður í lagi með grasið“

Tónlist

Sheeran elskar Ísland og er landsliðsaðdáandi