Segir tilslakanir mikilvægar fyrir skólastarf

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir tillögur sóttvarnalæknis skynsamlegar. Hún segir þær sérstaklega mikilvægar fyrir skólastarf í framhaldsskólum og háskólum.

Samkvæmt nýjum reglum sem heilbrigðisráðherra tilkynnti um í dag verður eins metra nándarregla í framhaldsskólum og háskólum og snertiíþróttir verða leyfðar með skilyrðum. Reglurnar eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis og munu gilda í tvær vikur. 

„Nú er það auðvitað þannig að það eru að greinast ný smit í dag og við þurfum áfram að hafa fullan vara á. Þannig að ég held að það sé mikilvægt að við höldum áfram að gæta að okkar einstaklingsbundnu sóttvörnum spritta og þvo hendur og svoleiðis,“ segir Katrín í viðtali í sjónvarpsfréttum. 

Nýju reglurnar gilda aðeins næstu tvær vikur og Katrín segir mikla óvissu framundan. Hún segir ljóst að hertar reglur sem tóku gildi fyrir tveimur vikum hafi borið árangur. „Það skiptir máli að grípa mjög hratt inn í. Við sjáum hversu ótrúlega lítið þarf til í rauninni til þess að veira blossi upp aftur og það er auðvitað lærdómur sem við erum nú að draga mjög harkalega núna. Og þó að þetta hafi verið viðbúið og fyrirséð þá er þetta samt, eins og ég segi, það þarf svo ótrúlega lítið til að þetta spretti upp aftur.“

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi