Sakar fyrrverandi forseta um mútuþægni

Mynd með færslu
Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó. Mynd: EPA - EFE
Kosningabarátta Enrique Pena Nieto var að hluta til fjármögnuð með mútugreiðslum frá brasilíska verktakafyrirtækinu Odebrecht. Fyrrverandi ráðgjafi hans greindi yfirvöldum frá þessu í gær. 

Saksóknarar hafa þetta eftir Emilio Lozoya, sem var helsti ráðgjafi Pena Nieto í utanríkismálum fyrir forsetakosningarnar 2012. Hann viðurkenndi fyrir yfirvöldum að mútugreiðslur að jafnvirði um 600 milljóna króna hafi að mestu verið notaðar til að fjármagna baráttuna. Fjármagnið kom frá Odebrecht.
Lozoya varð yfirmaður ríkisolíufyritækisins PEMEX í forsetatíð Pena Nieto frá árinu 2012 til 2016. Hann var framseldur frá Spáni í síðasta mánuði vegna spillingarmálsins gegn forsetanum fyrrverandi, og vinnu með yfirvöldum. 

Lozoya sakar þá Pena Nieto og fyrrverandi fjármálaráðherrann Luis Videgaray um atkvæðakaup við skipulagsbreytingar árin 2013 og 2014. Breytingarnar snerust meðal annars um einkavæðingu orkugeirans eftir 75 ár í umsjón hins opinbera. Núverandi forseti, Andres Manuel Lopez Obrador, segir framburð Lozoya hjálpa honum við að afhjúpa þá sem rændu þjóðina. 

Odebrecht teygði anga sína víða

Stjórn Odebrecht viðurkennir að hafa greitt hundruð milljóna dala mútur til þess að fá verkefni í tólf ríkjum, þar á meðal í Mexíkó. Fyrrverandi forsetar og embættismenn eru þegar á bak við lás og slá fyrir að hafa þegið greiðslur frá fyrirtækinu, þar á meðal í Brasilíu, Perú og Kólumbíu. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi