Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ráðuneyti skoðar stjórnsýslu Borgarbyggðar

Loftmynd tekin með dróna af Borgarnesi
Borgarnes. Mynd úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Sveitarstjórnarráðuneytið hefur ákveðið að taka stjórnsýslu Borgarbyggðar til formlegrar umfjöllunar. Þetta kemur meðal annars til vegna mikilla tafa sveitarfélagsins við að afgreiða og svara erindum.

Þrjár stjórnsýslukvartanir hafa borist ráðuneytinu vegna seinagangs sveitarfélagsins og annarra annamarka í meðferð erinda. Allar hafa þær með umhverfis- og skipulagssvið Borgarbyggðar að gera en þar hefur meðal annars afgreiðsla erinda dregist í ár. Skessuhorn greindi frá þessu í morgun.

Þórdís Sif Sigurðardóttir sveitarstjóri segir ákvörðun ráðuneytisins ekki hafa komið á óvart. Sveitarfélagið sé meðvitað um þá vankanta sem séu til staðar og sé þegar í ferli við að bæta úr þeim. Frá þessu hefur einnig verið greint í umfjöllun um legsteinasafn í Húsafelli.

„það er búið að vera mikið úrbótastarf á sviði umhverfis- og skipulagsmála hjá sveitarfélaginu. Það er búið að fjölga starfsfólki og lagfæra skráningar á húsum. Við erum búin að vinna við að færa bygginga- og skipulagsumsóknir í rafrænt og notendavænna horf,“ segir hún.

Í bréfi ráðuneytisins segir að í kjölfar umfjöllunarinnar verði gefið út álit eða leiðbeiningar um lögmæti athafna sveitarfélagsins. Þórdís segir það að sjálfsögðu miður að kvartanir berist vegna starfa Borgarbyggðar.

„Ég hef rætt við starfsmann ráðuneytisins sem kemur að þessu máli og við áttum gott spjall um þetta. við vorum sammála um að efni bréfsins myndi styðja það sem Borgarbyggð hefur verið að gera undanfarna mánuði og ár.“

Þórdís segir sveitarfélagið leggja kapp á að úrbætur í stjórnsýslu þess gangi í gegn sem fyrst, vonandi á næstu mánuðum.