
Pompeo skautaði framhjá lögum um vopnasölu
Þetta kemur fram í innri rannsókn utanríkisráðuneytisins á vopnasölu Bandaríkjanna til Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Þar segir að Mike Pompeo utanríkisráðherra hafi ekki gerst brotlegur við lög, en hann hafi þó farið á svig við þá venju að leggja mat á áhættu vopnasölunnar á líf almennra borgara, samkvæmt lögum um vopnasölu frá 1976. Eins hafi utanríkisráðuneytið reglulega samþykkt vopnasölu til ríkjanna án þess að tilkynna þinginu eins og lög gera ráð fyrir.
Rannsóknin á við um vopnasölu upp á 8,1 milljarð bandaríkjadala í maí í fyrra, jafnvirði um 1.100 milljarða króna. Pompeo gaf út neyðarsamþykki fyrir viðskiptunum á sínum tíma til þess að þau færu ekki fyrir þingið.
Bæði Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin taka þátt í stríðinu í Jemen þar sem fjöldi almennra borgara hefur fallið og stór hluti þjóðarinnar hefur orðið að flýja heimili sín. Margir þingmenn Bandaríkjaþings vildu á þessum tíma koma í veg fyrir vopnasölu til ríkjanna vegna loftárása þeirra, með stuðningi Bandaríkjastjórnar, í Jemen.