Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Pompeo skautaði framhjá lögum um vopnasölu

12.08.2020 - 04:55
epa08301769 US Secretary of State Mike Pompeo speaks to the media about the coronavirus COVID-19 pandemic, which he referred to as the 'Wuhan virus', at the State Department in Washington, DC, USA, 17 March 2020. Efforts to contain the pandemic have caused travel disruptions, sporting event cancellations, runs on cleaning supplies and food and other inconveniences.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn skautaði framhjá lögum sem krefjast þess að ákvörðun um vopnasölu til útlanda sé tilkynnt þinginu. Þá láðist utanríkisráðuneytinu að meta að fullu áhættuna á að almennir borgarar væru í hættu.

Þetta kemur fram í innri rannsókn utanríkisráðuneytisins á vopnasölu Bandaríkjanna til Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Þar segir að Mike Pompeo utanríkisráðherra hafi ekki gerst brotlegur við lög, en hann hafi þó farið á svig við þá venju að leggja mat á áhættu vopnasölunnar á líf almennra borgara, samkvæmt lögum um vopnasölu frá 1976. Eins hafi utanríkisráðuneytið reglulega samþykkt vopnasölu til ríkjanna án þess að tilkynna þinginu eins og lög gera ráð fyrir. 

Rannsóknin á við um vopnasölu upp á 8,1 milljarð bandaríkjadala í maí í fyrra, jafnvirði um 1.100 milljarða króna. Pompeo gaf út neyðarsamþykki fyrir viðskiptunum á sínum tíma til þess að þau færu ekki fyrir þingið.

Bæði Sádi-Arabía og Sameinuðu arabísku furstadæmin taka þátt í stríðinu í Jemen þar sem fjöldi almennra borgara hefur fallið og stór hluti þjóðarinnar hefur orðið að flýja heimili sín. Margir þingmenn Bandaríkjaþings vildu á þessum tíma koma í veg fyrir vopnasölu til ríkjanna vegna loftárása þeirra, með stuðningi Bandaríkjastjórnar, í Jemen.