Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Minnst einn talinn látinn í lestarslysi í Skotlandi

12.08.2020 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Gooogle Maps
Lest fór út af sporinu vestur af Stonehaven í Aberdeen-skíri í Skotlandi rétt fyrir klukkan tíu í morgun.

BBC greinir frá að Nicola Sturgeon fyrsti ráðherra Skotlands segi atvikið alvarlegt. Fréttir hafa nú borist af því að af þeim tólf sem voru í lestinni sé einn látinn og nokkrir illa slasaðir.

Vitað er að dráttarvagninn og þrír vagnar fóru út af sporinu. Sá fjórði hélst á teinunum.

Lögregla hefur staðfest að slysið sé alvarlegt. Reykur stígur upp frá slysstaðnum og fjöldi björgunarfólks hefur verið að störfum þar. Aðstæður eru erfiðar á slysstað þar sem teinarnir liggja hátt og nálægir vegir þröngir.

Allmargir hafa verið fluttir á sjúkrahús með bílum og þyrlu. Illviðri með mikilli úrkomu hefur gengið yfir svæðið og flóð hafa truflað samgöngur.

Ekkert liggur þó ennþá fyrir um ástæður slyssins en grunur er uppi um að jarðvegshruni sé um að kenna.

Heilbrigðisyfirvöld á svæðinu hafa sett upp hjálparmiðstöð í Aberdeen fyrir ættingja og vini þeirra sem lentu í slysinu. Breska ríkisstjórnin hefur einnig heitið allri mögulegri hjálp.

Síðasta slæma lestarslysið á Bretlandseyjum varð í Kumbríu árið 2007. Þá fór lest út af teinum með þeim afleiðingum að einn lést og þrjátíu slösuðust verulega.

Fréttin var síðast uppfærð kl. 14:26.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV