Leyfa eins metra reglu í skólum og snertiíþróttir

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Eins metra nándarregla verður í framhaldsskólum og háskólum og snertiíþróttir verða leyfðar með skilyrðum í nýjum sóttvarnareglum sem taka gildi á miðnætti 14. ágúst. Annað verður óbreytt. Nýjar reglur gilda til 27.ágúst.

Heilbrigðisráðuneytið hefur birt auglýsingu um nýjar reglur undirritaða fyrir hönd ráðherra.

Tveggja metra reglan enn í gildi nema í framhalds- og háskólum

Reglurnar eru í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis sem hann lagði fyrir heilbrigðisráðherra í gær og munu gilda í tvær vikur. Í stað tveggja metra nándarreglu alls staðar verður hún rýmkuð í framhalds- og háskólum og verður þar einn metri án þess að andlitsgrímur verði skylda. Að öðru leyti verður áfram verður farið fram á grímunotkun í aðstæðum þar sem ekki er hægt að halda tveggja metra fjarlægð. Íþróttir þar sem snertinga er krafist verða leyfðar með skilyrðum, svo sem um að virða tveggja metra reglu í búningsklefum. 

Áfram hundrað manna samkomutakmarkanir

Áfram verður ekki fleiri en hundrað manns leyft að koma saman og áhersla lögð á einstaklingsbundnar sóttvarnir. Börn fædd 2005 og síðar, sem eru grunnskólabörn og yngri, eru undanskilin fjöldatakmörkunum og nándarreglu.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi