Kamala Harris er „til í slaginn“

12.08.2020 - 23:13
epa08600078 A frame grab image taken from the Biden Harris livestream feed shows California Senator Kamala Harris speaking after being introduced as former US Vice President and presumptive Democratic presidential nominee Joe Biden's running mate in Wilmington, Delaware, USA, 12 August 2020.  EPA-EFE/BIDEN HARRIS CAMPAIGN / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - BIDEN HARRIS CAMPAIGN
Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, og Kamala Harris, varaforsetaefni flokksins, héldu blaðamannafund í Delaware í kvöld. Biden tilkynnti í gær að Kamala Harris, öldungadeildarþingmaður Kaliforníufylkis, yrði varaforsetaefni flokksins í forsetakosningunum í nóvember.

Blaðamannafundurinn fór fram í íþróttasal í framhaldsskólanum Alexis I DuPont High School og í sóttvarnaskyni var almenningi ekki hleypt inn. Frambjóðendurnir gengu á svið með grímur og ávörpuðu hóp blaðamanna.
 
Joe Biden sagði val þjóðarinnar í nóvember ákvarða framtíð landsins langt, langt fram í tímann. Hann sagði Donald Trump Bandaríkjaforseta nú þegar hafa hafið árásir á Harris með því að kalla hana „illkvittnasta, ferlegasta og dónalegasta þingmann öldungadeildarinnar“.

„Það kemur svosem engum á óvart, því að væla er það sem Trump gerir best. Furðar sig nokkur á því að Trump eigi erfitt  með að sætta sig við sterka konu?,“ spurði Biden.  

Þá gagnrýndi hann harðlega aðgerðaleysi forsetans í heilbrigðismálum og óstjórn í efnahagsmálum. Forsetinn hefði stuðlað að sundrung með kynþáttahyggju og hatursorðræðu.  

Harris sagðist „til í slaginn“, enda væri allt undir sem fólki væri annt um; hagkerfið, heilsan, börnin og framtíð landsins. „Eftir erfiðasta forval allra tíma sendi flokkurinn skýr skilaboð um að Joe Biden væri best til þess fallinn að leiða flokkinn. Og það er mikill heiður að standa þér við hlið,“ sagði hún og leit á meðframbjóðandann. 

Þá minnti hún á hetjudáðir þeirra kvenna sem rutt hefðu brautina og gert framboð hennar mögulegt. Hún sagði framgöngu Trumps hafa skilið landið eftir í tætlum og skaðað ímynd þess um heimsbyggð alla. 

Harris er fædd í Oakland í Kaliforníu. Foreldrar hennar voru innflytjendur, faðirinn frá Jamaíku og móðirin frá Indlandi. Hún varð fyrsta svarta konan til að verða ríkissaksóknari Kaliforníu og sú fyrsta af suður-asískum uppruna til að verða öldungadeildarþingmaður árið 2017. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi