Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íranir bjartsýnir á afléttingu vopnasölubanns

Mynd með færslu
Hassan Rouhani, forseti Írans. Mynd:
Hassan Rouhani Íransforseti kveðst vongóður um að ekkert verði af tillögu Bandaríkjanna í öryggisráði SÞ um framlengingu vopnasölubanns til Írans. Forsetinn varar við afleiðingum stuðnings ráðsins við hugmyndina.

Hefja á tilslökun á banni við vopnasölu til Írans í skrefum frá októbermánuði næstkomandi. Það verður gert á grunni kjarnorkusamkomulags öryggisráðsins nr. 2231 frá 2015.

Með samkomulaginu voru settar skorður á kjarnorkuáætlun Írana en jafnframt aflétt margvíslegum refsi- og þvingunaraðgerðum, sem kveðið var á um í fyrri ályktunum ráðsins. Bandaríkin riftu samkomulaginu fyrir sitt leyti árið 2018.

„Bandaríkin vanvirða aðra fulltrúa öryggisráðsins"

Fulltrúi Írans hjá Sameinuðu þjóðunum, Majid Takht Ravanchi, segir að Bandaríkin muni þurfa að hverfa frá hugmyndum sínum um áframhaldandi vopnasölubann vegna viðbragða annarra þjóða í öryggisráðinu. Hann kveðst bjartsýnn á að tillögum verði hafnað.

Javad Zarif utanríkisráðherra Írans segir Bandaríkjamenn vanvirða önnur ríki öryggisráðsins auk þess sem hugmyndir þeirra gætu orðið skaðlegar Sameinuðu þjóðunum.

Að sögn AFP fréttastofunnar kalla Bandaríkin eftir ótímabundnu vopnasölubanni á Íran með harla herskáu orðalagi. Bretar, Þjóðverjar og Frakkar, sem auk Rússa og Kínverja eiga hlut að kjarnorkusamkomulaginu frá 2015, hafa gefið í skyn að þeim hugnist að framlengja bann á hefðbundnum vopnum til Írans. Þeim er þó mjög í mun að viðhalda samkomulaginu sjálfu.

Bann Sameinuðu þjóðanna við sölu efna og tækni til Írana sem gæti gert þeim kleift að þróa kjarnavopn verður í gildi til ársins 2023. Evrópusambandið hyggst áfram viðhalda aðflutningsbanni sínu gagnvart Íran.