ESB íhugar aðgerðir gegn Hvít-Rússum

12.08.2020 - 03:39
epa08598237 Police officers with shields advance along a street during a protest the day after the presidential election, in Minsk, Belarus, 12 August 2020. Long-time President of Belarus Alexander Lukashenko won the elections by a landslide with 80 percent of the votes. The opposition does not recognise the results and has questioned the transparency of the counting process.  EPA-EFE/YAUHEN YERCHAK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Evrópusambandið íhugar að beita viðskiptarefsingum gegn þeim hvítrússnesku embættismönnum sem skipuðuöryggissveitum að beita mótmælendur harðræði eftir forsetakosningarnar í landinu á sunnudag. Alexander Lukashenko var endurkjörinn með um 80 prósentum atkvæða að sögn kjörstjórnar, en margir telja maðk í mysu stjórnarinnar. 

Josep Borrell, yfirmaður utanríkismála hjá ESB, fordæmdi óhóflegt ofbeldi yfirvalda í Hvíta-Rússlandi í gær og sagði kosningarnar á sunnudga hvorki frjálsar né sanngjarnar. Vísaði hann þar til áreiðanlegra skýrslna frá eftirlitsaðilum sem sýndu að að alþjóðlegum viðmiðum var ekki fylgt við kosningarnar. Þúsundir eru í varðhaldi eftir mótmæli undanfarinna daga í landinu og yfirvöld hafa í auknum mæli ráðist gegn réttindum fólks til að koma saman, fjölmiðlum og tjáningarfrelsinu, hefur Deutsche Welle eftir Borrell. 

Utanríkisráðherrar Eistlands, Finnlands, Lettlands og Póllands kölluðu eftir fjarfundi aðildarríkja til þess að ræða stöðuna í Hvíta-Rússlandi. Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, viðraði á mánudag hugmyndina um að taka aftur upp viðskiptaþvinganir gegn Hvíta-Rússlandi sem var aflétt árið 2016. 

Mótframbjóðandi hrakinn úr landi

Svetlana Tikhanovskaya, sem bauð sig fram gegn einræðisherranum Alexander Lukashenko í Hvíta Rússlandi, var handtekin á mánudag. Hún virðist hafa verið neydd til að lesa upp yfirlýsingu þar sem hún játar ósigur í kosningunum og biður landa sína um að hætta öllum mótmælum. Talsmenn kosningabaráttu Tikhanovskayu segja hana hafa gert samkomulag við ráðamenn í Hvíta Rússlandi um að hún yfirgæfi landið gegn því að kosningastjóri hennar yrði látin laus úr haldi.

Tikhanovskaya birti fyrst myndskeið þar sem hún segist vera örugg í Litháen og útskýrir að hún hafi yfirgefið Hvíta Rússland fyrir börnin sín. „Ég hélt að kosningabaráttan hefði styrkt mig en hún gerði það ekki. Ég neyddist til að taka mjög erfiða ákvörðun.  Þetta er mín ákvörðun og enginn, hvorki vinir né eiginmaður, gátu fengið mig til að skipta um skoðun."

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi