Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Breytingar á reglum setja leikmenn í erfiða stöðu

Mynd: Thomasz Kolodziejski / RÚV
Arnar Sveinn Geirsson, formaður Leikmannasamtaka Íslands og leikmaður Fylkis í fótbolta, segir að breyttar reglur um snertiíþróttir setji leikmenn í erfiða stöðu. Hann segist ekki vita til þess að leikmenn hafi ýtt mikið á eftir því að mótin hæfust aftur, íþróttafélög hafi verið þar fremst í flokki auk fjölmiðlafólks. Þá gagnrýnir Arnar KSÍ fyrir að hafa ekki haft samráð við leikmenn við gerð draga að reglum sambandsins um sóttvarnir. Arnar var gestur í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag. 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tilkynnti í dag að samkvæmt nýjum reglum um takmörkun á samkomum sem taka gildi á föstudag verði snertingar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum heimilaðar. KSÍ hefur staðfest að Íslandsmótið í fótbolta hefjist á ný á föstudagskvöld.  

Sumir með undirliggjandi sjúkdóma eða veika foreldra 

„Fótboltamenn, eins og aðrir á Íslandi, eru bara manneskjur, sumir hverjir með undirliggjandi sjúkdóma, aðrir með einhverja heima fyrir sem eru veikir fyrir og annað slíkt,“ segir Arnar.  

Hann óttast að leikmenn veigri sér við að neita að spila vegna smithættu. „Þú bara gerir það sem þér er sagt, þú ert í liðinu. Þú vilt ekki vera sá sem er ekki tilbúinn að leggja þig fram fyrir liðið eða klúbbinn. Það er bara verið að setja leikmenn í erfiða stöðu. Ég þekki dæmi um það að leikmenn eru sjálfir með undirliggjandi sjúkdóma eða veika foreldra. Og ég skil ofboðslega vel að þeim líði ekki sérstaklega vel með þetta,“ segir Arnar og vísar í niðurstöður úr könnun sem Leikmannasamtökin gerðu meðal leikmanna í efstu deildum þar sem kemur fram að 15 prósent leikmanna lítist illa eða mjög illa á að keppni hefjist aftur. „Við þurfum kannski að fara að átta okkur á því að fótbolti er ekki upphaf og endir alls í þessu lífi. Það er margt annað sem skiptir máli,“ bætir hann við.  

Hvað gerist ef leikmenn neita að spila vegna smithættu? 

Arnar bendir á að enn sé óljóst hvernig knattspyrnufélög bregðist við því að fótboltamenn neita að spila vegna smithættu. „Hvað gerist þá? Er leikmaður þá að brjóta samninginn sinn? Fær hann þá ekki greitt? Þrátt fyrir að hann sé mögulega bara að vernda sjálfan sig eða jafnvel að vernda einhvern heima fyrir. Þetta finnst mér allt ofboðslega óljóst,“ segir Arnar. 

Fréttastofa leitaði svara Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, við þessum spurningum. Hún bendir á að félögin sjálf verði að skera úr um það hvernig málum sem þessum verði háttað. Aðspurð hvort reglur KSÍ um sóttvarnir ættu að innihalda klausu um réttindi leikmanna sem hafna því að spila vegna smithættu segir hún það ekki hafa verið rætt. „En það er ágætis punktur,“ segir hún.  

Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri ÍTF – hagsmunasamtaka félaga sem reka lið í efstu deildum í knattspyrnu, segir ekkert við því að gera ef leikmenn vilja ekki spila. Hann hafnar því ekki að slíkt gæti talist samningsbrot: „Já, þeir eru með samninga allir þessir í efstu deildum. En þetta eru óvenjulegar aðstæður. Og menn geta haft mjög skýrar ástæður. Þetta verður að vera samkomulag milli leikmanns og félags.“ 

Gagnrýnir drög KSÍ að reglum um sóttvarnir 

KSÍ hefur gefið út drög að reglum um sóttvarnir. Þar kemur meðal annars fram að tryggja skuli tveggja metra bil milli allra einstaklinga inni í búningsklefum og á leikmannagangi og í búningsklefum sé leikmönnum skylt að nota grímur. Samkvæmt drögunum þurfa þjálfarar og aðrir starfsmenn liða að nota grímur á æfingum og leikmenn þurfa að halda tveggja metra fjarlægð sín á milli á liðsfundum.  

Arnar segist ekki sjá fyrir sér að leikmenn geti fylgt þessum reglum. „Nei ég held það sjái það allir og viti, allavega þeir sem hafa spilað fótbolta og verið í kringum klefa fyrir leiki og eftir leiki og í hálfleik að þetta er ekki raunveruleikinn,“ segir hann.  

„Voru þessi drög bara gerð til að fá þessa undanþágu? Og ekkert spáð meira í því hvernig það myndi líta út eða hvað það þýddi. Eða er einhver raunveruleg merking á bak við þessar reglur?,“ spyr Arnar.

Ótækt að setja leikmönnum takmörk um daglegt líf 

Hann gagnrýnir ekki síst að leikmönnum séu sett takmörk í daglegu lífi. Í drögunum segir að leikmenn, þjálfarar, dómarar og aðrir starfsmenn liða skuli „lágmarka samskipti við aðra eins og kostur er. Í þessu felst m.a. að þessir aðilar ættu að forðast fjölmenna staði eins og verslanir, veitingastaði, bíóhús, skemmtistaði o.s.frv.“ 

Arnar segist hreinlega efast um að leikmenn vilji spila ef þeim eru settar þessar reglur. „Eru þetta tilmæli eða eru þetta reglur? Er verið að skikka leikmenn til að hægja á lífi sínu til að geta spilað fótbolta?,“ spyr hann. Hann bendir á að margir leikmannanna séu áhugamenn og lifi ekki af fótboltanum. Það sé ekki hægt að setja leikmönnum á Íslandi sambærilegar reglur og leikmönnum víða um heim þar sem þeir hafa fótboltann að atvinnu.
 
Aðspurð um þetta segir Klara að ástandið sé vissulega „íþyngjandi fyrir leikmenn eins og heimsbyggð alla. Ef við ætlum að spila áfram þurfum við að reyna að gera það eins vel og kostur er. Þetta er okkar leið og höfum fengið viðbrögð“. Hún minnir á að skjalið sem KSÍ birti séu drög sem enn sé unnið að.