Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Bíða hagstæðra skilyrða til eldflaugaskots á Langanesi

Mynd með færslu
 Mynd: Skyrora
Leyfi sem skoska fyrirtækið Skyrora fékk til þess að skjóta eldflaug á loft frá Langanesi tók gildi í dag. Nú er beðið eftir hagstæðum veðurskilyrðum, en svæðinu er lýst sem nærri fullkomnu til verkefnisins.

Skyrora lýsir sér sem Uber geimiðnaðarins, en það þróar og smíðar eldflaugar sem ætlað er að ferja gervihnetti út í geim. Fyrirtækið hefur fengið leyfi fyrir tilraunaskoti frá og með deginum í dag fram á sunnudag og beðið er átekta á Langanesi eftir hagstæðum veðurskilyrðum. 

„Þetta virkar þannig að við fáum skotglugga sem er yfir nokkra daga. Þegar við teljum okkur vera komin með kjöraðstæður þá er það tilkynnt, með fyrirvara um að það er hægt að hætta við skotið alveg fram á síðustu sekúndu. En þetta lítur allt mjög vel út,“ segir Atli Þór Fanndal hjá Geimvísinda- og tækniskrifstofunni.

Ef skilyrði verða ekki nógu góð er hægt að sækja um annan glugga síðar. Ef vel gengur er þó of snemmt að segja til um hvort gervihnöttum verði reglulega skotið upp frá Langanesi. 

Viðræður um allavega tvö skot í viðbót

„Framhaldið af þessu er svolítið óljóst, en við höfum verið í viðræðum við þá um allavega tvö skot í viðbót og svo er von okkar að eitthvað verði áfram. En það er eins með þetta og annað að það er mikil óvissa.“

Atli segir að á Íslandi séu aðstæður góðar hvað varðar tilraunir í geimvísindum og þó erfitt sé að lofa fleiri verkefnum, þá séu tækifærin til staðar.

„Það er erfitt að finna stað sem er algjörlega fullkominn, en Langanesið kemst ansi nærri því. Þannig við sjáum fram á talsverðan vöxt í tækifærum á næstu árum.“

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV