Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Tikhanovskaya var handtekin og neydd til að játa ósigur

11.08.2020 - 18:41
epaselect epa08593176 Belarusian opposition presidential candidate Svetlana Tikhanovskaya casts her ballot paper at a polling station during presidential elections in Minsk, Belarus, 09 August 2020.  EPA-EFE/MARINA SEREBRYAKOVA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Svetlana Tikhanovskaya, sem bauð sig fram gegn einræðisherranum Alexander Lukashenko í Hvíta Rússlandi, var handtekin á mánudag. Hún virðist hafa verið neydd til að lesa upp yfirlýsingu þar sem hún játar ósigur í kosningunum og biður landa sína um að hætta öllum mótmælum. Talsmenn kosningabaráttu Tikhanovskayu segja hana hafa gert samkomulag við ráðamenn í Hvíta Rússlandi um að hún yfirgæfi landið gegn því að kosningastjóri hennar yrði látin laus úr haldi.

Þetta kemur fram á vef Washington Post.  

Tikhanovskaya birti fyrst myndskeið þar sem hún segist vera örugg í Litháen og útskýrir að hún hafi yfirgefið Hvíta Rússland fyrir börnin sín. „Ég hélt að kosningabaráttan hefði styrkt mig en hún gerði það ekki. Ég neyddist til að taka mjög erfiða ákvörðun.  Þetta er mín ákvörðun og enginn, hvorki vinir né eiginmaður, gátu fengið mig til að skipta um skoðun.“

Tikhanovskaya segist vita að einhverjir muni skilja ákvörðun hennar en aðrir munu hata hana. „En ég myndi ekki vilja óska neinum að vera í minni stöðu. Börn eru það mikilvægasta í lífinu.“

Skömmu síðar birtist annað myndskeið þar sem Tikhanovskaya virðist lesa upp skrifaða yfirlýsingu. Þar biður hún stuðningsmenn sína um að hætta öllum mótmælum þar sem úrslit kosninganna tali sínu máli. 

Washington Post segir allt benda til þess að henni hafi verið haldið á ótilgreindum stað í nokkrar klukkustundir og hún neydd til að lesa upp yfirlýsinguna.

Tikhanovskaya sendi börn sín úr landi eftir að henni hafði verið hótað að þau yrðu send á munaðarleysingjahæli. Eiginmaður hennar, vinsæll bloggari í Hvíta Rússlandi, var handtekinn í maí.  Linas Linkeviciu, utanríkisráðherra Litháens, sagði á fréttamannafundi í dag að Tikhanovskaya hefði ekki átt annarra kosta völ en að yfirgefa landið. 

Í viðtali við BBC sagði Linkeviciu að svo virtist sem Tikhanovskaya hefði gengið á fund yfirkjörstjórnarinnar í Hvíta Rússlandi til að leggja fram kvörtun vegna kosninganna. Henni hefði í framhaldinu verið haldið gegn vilja sínum í nokkrar klukkustundir.   Hann staðfesti síðan að Tikhanovskaya hefði komið til Litháens ásamt kosningastjóra sínum.  

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV