„Það veit enginn hvort hann átti þetta barn“

Mynd: Saga Sig / Aðsend

„Það veit enginn hvort hann átti þetta barn“

11.08.2020 - 10:45

Höfundar

Þóru Karítas Árnadóttur, leikkonu og rithöfund, dreymdi sérkennilegan draum fyrir um fimm árum síðan þar sem Bubba Morthens brá meðal annars fyrir. Draumurinn leiddi Þóru á slóðir Þórdísar Halldórsdóttur sem var ein þeirra sem drekkt var í Drekkingarhyl á Þingvöllum. Henni var gefið að sök að hafa eignast barn með mági sínum. Þóra er að leggja lokahönd á skáldsögu byggða á ævi Þórdísar.

Dreymdi Bubba Morthens og skrifaði bók

Í draumnum var Þóra stödd á Húsavík þegar hún fær fundarboð frá Jóhanni Páli, fyrrum eiganda Forlagsins, og Bubba. Fundurinn átti sér hins vegar ekki stað því hún vaknaði. „Ég hugsaði: Hvað var mig að dreyma þetta?“ rifjar hún upp. Á þessum tíma var Þóra nýbúin að senda frá sér sína fyrstu bók, Mörk, sem gefin var út hjá Forlaginu, og var að leita að efni fyrir næstu skáldsögu. Forvitin eftir draumfarirnar fletti hún Bubba upp á Google og komst að því að hann hafði sjálfur samið heila plötu eftir að dreyma konurnar sem voru teknar af lífi í Drekkingarhyl. „Hann hafði dreymt að hann væri að veiða við Drekkingarhyl og svo sá hann strigapoka með konum koma upp úr hylnum. Hann leitaði til Silju Aðalsteins sem er hans helsti ráðgjafi og hún sagði honum að skrifa um þetta. Hann samdi rosalega flott lög.“

Fleiri tilviljanir og kaffibolli með Bubba

Ljós kviknaði í höfði Þóru sem ákvað að leika þetta eftir og skrifa um eina þeirra kvenna sem mætti örlögum sínum þarna - en tilviljanirnar urðu fleiri. „Ég hugsaði að það yrði gott að hitta Bubba og tala við hann um þetta en þá sendir hann mér bréf að fyrra bragði,“ rifjar hún upp. Þá hafði Bubbi nýverið lokið við að lesa Mörk, fyrstu bók Þóru sem kom út árið 2015, og vildi endilega þakka henni fyrir bókina. „Kaffibollinn og samtalið gerðust án þess að ég hefði planað það. Svo núna nokkrum árum síðar er ég búin að skrifa þessa bók um hana Þórdísi Halldórsdóttur sem ég hlakka rosalega til að kynna fyrir lesendum.“ Þóra settist við skriftir og er núna að fara yfir lokapróförk skáldsögunnar sem nefnist Blóðberg.

„Hélt ég myndi byrja á léttri skvísusögu“

Mörk byggði einnig á sannri sögu því þar segir Þóra frá móður sinni, uppvexti hennar og ofbeldi sem hún varð fyrir í æsku. „Ég hélt ég myndi byrja á léttri skvísusögu og gera grín að einkalífinu sem var skrautlegt þegar ég var í leiklistarnámi en svo velur maður ekki alltaf tímasetningar,“ segir Þóra. „Ég man að ritstjórinn spurði hvort ég væri viss um að langa að byrja á þessari bók því rithöfundar enda oft ferilinn á svona bók, en ég var viss.“

Sem betur fer skrifaði Þóra bókina á þessum tíma því fyrir ári síðan lést móðir hennar og er hún því sjálf ekki lengur til frásagnar um sögu sína. „Maður er meira og meira að sjá að það er ekkert eilíft í heiminum,“ segir hún. „Annars er maður í eftirsjá.“

Alltaf með glasið hálffullt

Bókin gerist í Reykjavík árið 1952 og segir frá bæði því góða sem móðir Þóru upplifði í æsku og hrottalegu ofbeldi hún var beitt innan fjölskyldunnar. „Ég reyni að draga fram hennar magnaða styrk og erindi við aðra,“ segir Þóra stolt. Móðir hennar Guðbjörg Þórisdóttir starfaði lengst af sem skólastjóri og segir Þóra hana hafa verið afar vel liðinn stjórnanda og að hún hafi alltaf verið með glasið hálffullt. „Ég hugsaði hvernig það væri hægt þegar maður er búinn að ganga í gegnum svona hluti, en stundum er það auka andlegur kraftur sem kemur inn og fleytir manni í gegnum erfiðleikana.“

Hún segir í raun magnað að bókin hafi verið skrifuð fyrir metoo-byltinguna sem varð þegar konur úr öllum stéttum stigu fram, rufu þögnina og sögðu frá því ofbeldi sem þær höfðu þolað. „Mamma hefði viljað segja söguna fyrr. Hana langaði að koma henni út,“ segir Þóra og með aðstoð dóttur sinnar varð henni að ósk sinni. „Þetta hefur þurft að koma upp á yfirborðið af ástæðu til að geta haldið fram á veginn.“

Tekin af lífi fyrir að eignast barn með mági sínum

Nýjasta verk Þóru fjallar hins vegar ekki um hennar eigin fjölskyldu heldur fer hún lengra aftur í tímann. Hún segir frá Þórdísi Halldórsdóttur, ungri stúlku sem var gefið að sök að hafa eignast barn með mági sínum. Fyrir meintar sakir var hún tekin af lífi samkvæmt stóradómi. „Það var í raun tilviljun að ég skyldi velja hana af þessum átján konum,“ segir Þóra, „en það sem mér fannst áhugavert var að hún eignaðist þetta barn en það var ekki fyrr en tíu árum síðar sem hún er tekin af lífi.“

Í bók Þóru lýsir hún lífi Þórdísar sem góðu að ýmsu leyti í þessi tíu ár sem hún átti barnið, áður en hún er myrt fyrir það. Engin játning lá þó fyrir í málinu nema sú sem knúin var fram með pyntingum samkvæmt Þóru. Til þess var notuð fingraklemma og Þórdís þráspurð hver barnsfaðirinn væri. „Þá segir hún samkvæmt því sem skrifað hefur verið: Hver heldur þú að það sé?“ segir Þóra. Mágur hennar er þá sá sem grunaður er og sárkvalin samþykkir Þórdís að það sé satt en dregur svo játninguna strax til baka. „Það veit enginn hvort hann átti þetta barn.“

Á Þingvöllum hefur verið reistur minnisvarði um konurnar sem drekkt var við hylinn og fagnar Þóra því. „Þingvellir eru magnaður staður og stórbrotið umhverfi en þar er gálgaklettur og örnefnin vísa í að fólk var tekið. Það er mikilvægt að gleyma ekki þessari sögu,“ segir Þóra. „Það eru stundaðar aftökur í Bandaríkjunum en mikilvægt að við vitum líka að það hefur gerst hér.“

Eins og að „matcha á Tinder“ við Borgarleikhúsið

Þóra lærði ritlist í Háskóla Íslands en hún er líka menntuð leikkona og hefur leikið í kvikmyndum, sjónvarpi og sýningum í Þjóðleikhúsinu. Næst á döfinni hjá Þóru, ásamt að gefa út Blóðberg, er að koma sér fyrir í leikstjórastólnum í Borgarleikhúsinu og leikstýra leikritinu Taktu lagið Lóa eftir Jim Cartwright. „Þetta var eins og að matcha á Tinder við Borgarleikhúsið,“ segir Þóra sem heillaðist af uppsetningu verksins í Þjóðleikhúsinu árið 2002 og fór að langa sjálfa að setja það upp. „Mér er sagt að það sé annað leikhús að falast eftir verkinu og svo hafði Brynhildur Guðjónsdóttir samband og spurði hvað ég hefði í huga með verkið. Ég sagðist hafa verið að skoða leikstjórastólinn og hún bauð mér, af virðingu sinni, hugrekki og innsæi, að leikstýra,“ segir Þóra. „Ég hoppaði hæð mína og var rosalega glöð.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Þóru Karítas Árnadóttur í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Maður horfði upp á fólk deyja"

Menningarefni

Þráði alltaf að eignast fjölskyldu

Menningarefni

Fann ástina aftur eftir erfiðan skilnað