Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir of algengt að auðkýfingar skipti sér af umfjöllun

11.08.2020 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
„Mér finnst fyrir neðan allar hellur að auðkýfingar reyni að koma í veg fyrir eðlilega og sjálfsagða umfjöllun um þá og þeirra starfsemi,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, um myndskeið sem Samherji gaf út í dag.

Í myndskeiðinu er því meðal annars haldið fram að Helgi Seljan og Ríkisútvarpið hafi falsað gögn við gerð Kastljósþáttar árið 2012 um rannsókn Seðlabankans á Samherja. RÚV hafnar ásökununum.

Hjálmar segir í samtali við fréttastofu að auðkýfingar ættu að fagna því aðhaldi sem felst í fréttaflutningi í stað þess að berjast gegn því.  

Þá segir hann allt of algengt að fyrirtæki reyni að hafa áhrif á umfjöllun og slíkt sé auðvitað það sem blaðamenn þurfa að reikna með. „Ég trúi því að þetta herði okkur í þeim ásetningi okkar að sinna okkar hlutverki og standa vörð um tjáningarfrelsið og það aðhald sem það veitir í lýðræðissamfélögum,“ segir hann.  

Aðspurður hvort ekki megi telja alvarlegt að blaðamenn þurfi að reikna með framgöngu sem þessari segir Hjálmar að það sé ömurlegt, en því miður það sem blaðamenn hafa ítrekað þurft að þola. „En þannig er það nú einu sinni, að menn geta reiknað með því, og menn auðvitað bara standa það af sér. Það er ekkert flókið,“ segir hann að lokum.  

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV