Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Íslendingar þurfa í sóttkví á Grænlandi

11.08.2020 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Íslendingar og Færeyingar verða framvegis að fara í 14 daga sóttkví við komu til Grænlands. Landsstjórnin í Nuuk tilkynnti í dag að farþegar frá Færeyjum og Íslandi væru ekki lengur undanþegnir reglum um sóttkví vegna fleiri kórónaveirusmita í löndunum.

 Frá þessu er skýrt í grænlenska blaðinu Sermitsiaq.

Fylgja í fótspor Norðmanna

Grænland er annað landið sem sem krefst þess að farþegar frá Íslandi og Færeyjum fari í sóttkví. Miðað er við fjölda smita síðastliðinn hálfan mánuð. Hitt landið er Noregur, en þar hafa heilbrigðisyfirvöld lagt til að Ísland verði lagt á svokallaðan rauða lista. Norðmenn miða við að ekki séu fleiri en 20 af hverjum hundrað þúsund íbúum smitaðir. Sú tala er um 30 á Ísland, en 205,4 í Færeyjum.

Meir en 900 í sóttkví

Meira en 900 eru í sóttkví í Færeyjum eftir að kórónuveirufaraldurinn blossaði þar upp í síðustu viku. 99 virk smit eru í eyjunum. Heilbrigðisyfirvöld leggja mikla áherslu á að skima og rekja og hafa nú skimað fyrir veirunni meir en 58 þúsund sinnum - sem er meira en íbúafjöldi Færeyja. Á föstudaginn voru tekin rúmlega 4500 sýni og á annað þúsund í gær.

Færri greinast en í síðustu viku

Færri greinast nú með smit en í síðustu viku að sögn landlæknis Færeyja, en ekki eru birtar tölur á hverjum degi. Nýjustu tölur eru frá því á sunnudag en þá greindust tíu smitaðir af kórónuveirunni. Landlæknir segir Færeyinga hafa brugðist við nýju smitbylgjunni af mikilli alvöru.