Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fyrsta innanlandssmitið í Nýja-Sjálandi í 102 daga

11.08.2020 - 10:52
epa08591013 New Zealand Prime Minister Jacinda Ardern speaks at the Labour Party campaign launch in Auckland, New Zealand, 08 August 2020. New Zealand's parliament has adjourned ahead of the 19 September election.  EPA-EFE/DAVID ROWLAND AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Útgöngubanni hefur verið komið á í Auckland í Nýja-Sjálandi eftir að fjögur ný kórónuveirusmit greindust þar. Þetta eru fyrstu innanlandssmit kórónuveirunnar í Nýja-Sjálandi í 102 daga. Smitin fjögur greindust í sömu fjölskyldunni og uppruni þeirra er ekki þekktur.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra landsins, hefur skipað fyrir um að íbúar þessarar stærstu borgar Nýja-Sjálands haldi sig heima. Hún sagði að þetta væri fyrsta tilfelli kórónuveirusmits utan sóttkvíar og einangrunar í 102 daga. Unnið hefði verið hart að því að koma í veg fyrir þetta smit en viðbrögðin einnig undirbúin ef það myndi gerast.

Fjölskyldan sem greindist með smit hafði ekki ferðast erlendis. Nú er verið að rekja smitin.

Þessi nýju innanlandssmit hafa orðið til þess að sóttvarnarreglur hafa verið hertar á ný í öllu Nýja-Sjálandi. Samkomutakmörkunum hefur verið komið aftur á og fólki gert að halda tveggja metra samskiptafjarlægð. Þá er fólki sem ekki býr á nyrðri eyju Nýja-Sjálands þar sem Auckland er bannað að ferðast þangað.

Arden hvatti fólk til þess að hópast ekki í stórmarkaði til þess að verða sér út um nauðsynjar.