Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Engin gögn benda til að fólk veikist aftur af COVID-19

11.08.2020 - 22:30
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Engin gögn benda til þess að fólk geti veikst aftur af COVID-19. Þetta segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Þótt fólk mælist ekki með mótefni þýði það ekki að það sé óvarið fyrir sýkingunni.

Fréttastofa fjallaði í kvöld um mál Heru Sólveigar Ívarsdóttur sem þurfti að leggjast inn á spítala vegna COVID-19 veikinda. Hún fór í þrjár mótefnamælingar; hjá Landspítalanum, Íslenskri erfðagreiningu og Domus Medica og niðurstaðan var alltaf sú sama. Hún var ekki með mótefni fyrir veirunni.

Íslensk erfðagreining hefur skimað rúmlega 30 þúsund manns fyrir mótefnumgegn COVID-19 og reyndist 9 prósent þeirra ekki vera með mótefni. Már Kristjánsson segir að þetta þýði þó ekki að fólk geti veikst aftur af COVID-19.  „Þegar smitefni kemur inn í líkamann þá bregst líkaminn við því og veikindi fólks helgast af vörnum líkamans og smitefnisins.“

Í tilviki COVID-19 andi fólk að sér veirunni og í verstu tilfellum fái það lungnabólgu. „En síðan lagast fólk vegna þess að varnirnar hafa náð yfirhöndinni. Við notum tvenns konar varnir og fótsporin eru annars vegar mótefni, þessi vessabundnu svör og hins vegar frumubundin varnarviðbrögð. Við getum ekki mælt þau síðarnefndu með viðlíka hætti og mótefnin.“

Már segir að þessi níu prósent sem ekki hafi mælst með mótefni sé í raun lýsing á breytileika fólks. Sumir þurfi hreinlega ekki þetta varnarviðbragð. „Mér er ekki kunnugt um að einhver hafi sýkst aftur af kórónuveirunni.“ Hann bendir á að fólk sem fékk lömunarveikina hafi stundum setið eftir með afleiðingar veikinnar. „En það fékk ekki lömunarveikina aftur.“

Við landamæraskimun hefur verið lögð mikil áhersla á að fólk sem greinist með kórónuveiruna fari í mótefnamælingu. Ef það er með mótefni sleppur það við einangrun, ef ekki þá þarf viðkomandi að fara í einangrun. Már segir þetta prakmatíska ákvörðun því íslensk yfirvöld hafi ekki tekið gild erlend vottorð um að fólk hafi fengið COVID-19.