Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Einn lést í átökum í Minsk

11.08.2020 - 12:16
Mynd: AP / AP
Aftur kom til mótmæla í gærkvöld í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, vegna meintra kosningasvika og lést einn í átökunum. Svetlana Tsíkhanovskaja, forsetaframbjóðandi í Hvíta-Rússlandi, er flúin frá landinu og komin til Litháens. Tsíkhanovskaja hefur lýst yfir að hún viðurkenni ekki tölurnar sem yfirkjörstjórn Hvíta-Rússlands birti á sunnudagskvöld. Samkvæmt þeim var Alexander Lúkasjenkó endurkjörinn forseti með rúmlega 80 prósentum atkvæða, en Tsíkhanovskaja fékk tæp 10 prósent.

Lagði fram formlega kvörtun

Svetlana Tsíkhanovskaja kvartaði formlega vegna annmarka á framkvæmd kosninganna í gær. Eftir að hún fór af skrifstofu yfirkjörstjórnar í Minsk svaraði hún ekki í síma og ekkert var vitað um hvar hún væri. Í morgun kom svo í ljós að hún hafði flúið til Litháens. Tsíkhanovskaja birti ávarp á youtube í morgun.

 
,,Ég hélt að kosningabaráttan hefði hert mig svo að ég gæti tekist á við hvað sem er, en sennilega er það ekki rétt." 

Fór vegna barnanna

Tsíkhanovskaja sagðist sjálf hafa ákveðið að fara í útlegð frá Hvíta-Rússlandi og gaf í skyn að það væri vegna barna sinna sem hún hafði áður sent frá Hvíta-Rússlandi. Hún endaði ávarp sitt á að segja að börn væru það mikilvægasta í lífinu.

Var í haldi í sjö klukkutíma

Linas Linkevičius, utanríkisráðherra Litháens, hefur sagt að Tsíkhanovskaja hafi verið í haldi yfirvalda í Minsk í sjö klukkutíma eftir að hún afhenti yfirkjörstjórn bréf með kvörtunum sínum. Tsíkhanovskaja hefði svo komið til Litháens í morgun.

Harka í mótmælum

Stór hluti Hvít-Rússa neitar að trúa tölum yfirkjörstjórnarinnar og í gærkvöld var aftur efnt til mótmæla í Minsk og víðar. Aftur beittu lögregla og öryggissveitir mikilli hörku til að reyna að dreifa mótmælendum. Skotið var gúmmíkúlum, táragasi og hvellsprengjum að þeim og þeir barðir með kylfum og bareflum. Yfirvöld segja að einn hafi látið lífið. Sjónvarpsmyndir af átökunum í Minsk sýna að margir særðust. Breska ríkisútvarpið segir að harka lögreglu og öryggissveita hafi komið á óvart og þær hafi beitt vopnum sem ekki hafi verið notuð í Hvíta-Rússlandi áður.

Fleiri efast um úrslitin

Ekki aðeins mótmælendur í Hvíta-Rússlandi véfengja úrslitin. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Póllands, Þýskalands og fleiri ríkja segja að brögð hafi verið í tafli. Rússar og Kínverjar hafa á hinn bóginn óskað Alexander Lúkasjenkó til hamingju með endurkjörið.