Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Boeing enn í kröppum dansi

11.08.2020 - 18:45
epa08228292 (FILE) - Boeing 737 Max 8 aircraft sit parked at Boeing Field in Seattle, Washington, USA, 21 July 2019 (reissued 19 February 2020). Boeing on 19 February 2020 said they had found what the company callls 'Foreign Object Debris' inside the fuel tanks in wings of built but not delivered Boeing 737 Max airplanes. Boeing said the 'finding led to a robust internal investigation and immediate corrective actions in our production system'.  EPA-EFE/GARY HE   EDITORIAL USE ONLY
 Mynd: epa
Í júlí voru 43 Boeing 737 MAX þotur afpantaðar til viðbótar við þær ríflega 350 sem flugfélög höfðu þegar hætt við að kaupa á árinu. Engar nýjar flugvélar voru pantaðar í júlí.

Boeing afhenti fjórar flugvélar í júlí en nítján í sama mánuði árið 2019. Tvær voru 787 Dreamliner til Air France-KLM og Turkish Airlines. Lykilatriði er fyrir flugvélaframleiðenda að afgreiða sem flestar vélar, því við afhendingu er meirihluti kaupverðsins greiddur.

Ekkert flugfélag hefur notað Boeing MAX þotur síðan í mars 2019. Undanfarna mánuði hefur Boeing gert sitt ítrasta til að þær geti talist flughæfar að nýju. Í maí síðastliðnum hófst framleiðsla þeirra aftur eftir nokkurra mánaða hlé og í júní hófst tilraunaflug.

Enn hefur leyfi flugmálayfirvalda ekki fengist og því er ólíklegt að Boeing afhendi fleiri þotur fyrr en á síðasta fjórðungi ársins hið fyrsta. Kórónuveirufaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á flugfélög og framleiðendur um allan heim.

Boeing hefur tilkynnt að félagið gæti þurft að segja upp enn fleira starfsfólki en í apríl var 16 þúsund sagt upp störfum.