Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Áframhaldandi skimun og sóttkví í einhverri mynd

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að áfram þurfi að beita skimun og sóttkví í einhverri mynd á landamærum ef stjórnvöld vilja lágmarka áhættuna á að veiran berist til landsins. Þetta kom fram á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Hann segir tillögurnar sem hann afhenti heilbrigðisráðherra í morgun snúast um það.

„Ég reifaði kosti og galla um ýmsar aðgerðir á landamærum og kom auk þess með tillögur um aðgerðir innanlands,“ segir Þórólfur um tillögurnar. Hann segist leggja til nokkrar tilslakanir innanlands og vonast til að enn meira megi slaka á takmörkunum næstu daga. 

„Eins og lagt var upp með þegar við byrjuðum að skima á landamærum þann 15. júní höfum við öðlast heilmikla þekkingu og reynslu sem fylgir þeirri hættu sem getur fylgt einstaklingum sem ferðast hingað til lands hvað COVID-19 varðar,“ segir Þórólfur.

Þá sagði hann skimun á landamærum virka til að lágmarka áhættuna á að smit bærist hingað. „Við höfum einnig lært að það er nóg að einn einstaklingur beri veiruna til landsins til að setja af stað hópsýkingu með alvarlegum afleiðingum,“ bætti hann við.