Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Æðstu menn í Líbanon varaðir við sprengiefninu í júlí

11.08.2020 - 05:34
Erlent · Hamfarir · Asía · Líbanon · Stjórnmál
epaselect epa08595206 General view of the aftermath of Beirut port blast six days after an explosion rocked the city, Beirut, Lebanon, 10 August 2020. Lebanese Health Ministry said at least 160 people were killed, and more than 6000 injured in the Beirut blast that devastated the port area on 04 August and believed to have been caused by an estimated 2,750 tons of ammonium nitrate stored in a warehouse.  EPA-EFE/WAEL HAMZA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sérfræðingar í öryggismálum vöruðu bæði forseta og forsætisráðherra Líbanons við því í júlí, að mikil hætta stafaði af þeim miklu birgðum af ammóníumnítrati, sem sprungu í Beirút 4. ágúst og kostuðu á þriðja hundrað mannslífa. Reuters-fréttastofan greinir frá þessu og vísar bæði í skjöl sem fréttastofan fékk aðgang að og heimildarmenn innan líbanska stjórnkerfisins.

„Mikil og bein ógn“

Samkvæmt þessu voru þeir Michel Aoun, forseti, og Hassan Diab, forsætisráðherra, upplýstir um það 20. júlí síðastliðinn, að 2.750 tonn af sprengifimu ammóníumnítrati í vöruskemmu á hafnarsvæðinu í Beirút væru mikil og bein ógn við öryggi borgarinnar og íbúa hennar. Færi svo að þetta spryngi gæti það sem hægast eytt stórum hluta borgarinnar.

Tveimur vikum síðar gerðist einmitt það sem varað var við; eldur komst í efnið og olli gríðarmikilli sprengingu. Nánast öll mannvirki á hafnarsvæðinu þurrkuðust af yfirborði jarðar, yfir 200 manns týndu lífi og á sjöunda þúsund slösuðust, auk þess sem um 6.000 byggingar í borginni eyðilögðust.

Opinbert erindi frá Þjóðaröryggisstofnun Líbanons

Atburðarásin í aðdraganda sprengingarinnar miklu er rekin í skýrslu Þjóðaröryggisstofnunar Líbanons sem Reuters hefur undir höndum. Þar er vikið að erindi sem þeim Aoun og Diab var sent 20. júlí. Bréfið sjálft var ekki í skýrslunni, en Reuters hefur eftir háttsettum embættismanni innan stofnunarinnar að þar hafi verið raktar niðurstöður rannsóknar frá því í janúar síðastliðnum, sem voru í stuttu máli þær að fjarlægja þyrfti ammóníum-nítratið hið allra fyrsta og koma því á öruggan stað. Meðal annars var hætta talin á að efnið yrði notað til hryðjuverkaárásar, kæmist það í rangar hendur.

„Að rannsókn lokinni vann [Ghassan] Oweidat yfirsaksóknari lokaskýrslu um málið, sem sent var til yfirvalda," segir heimildarmaðurinn, og vísar þar til bréfsins sem sent var forsetanum og forsætisráðherranum sem opinbert erindi Þjóðaröryggisstofnunarinnar. „Ég sagði þeim að þetta gæti jafnað Beirút við jörðu ef það spryngi," segir heimildarmaðurinn, sem átti þátt í að skrifa téð erindi en vill ekki láta nafns síns getið.