Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

26 bóluefni á lokastigi rannsókna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alls er verið að gera tilraunir með 26 bóluefni gegn COVID-19 víðsvegar um heim. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin greinir frá þessu. Rússlandsstjórn tilkynnti í morgun að þar í landi hefði fyrsta bóluefnið verið skráð.

Þýsk heilbrigðisyfirvöld hafa lýst yfir efasemdum um gæði og öryggi bóluefnisins sem Rússar kynntu í morgun. Ekki liggi fyrir nein gögn sem sanni virkni þess en öryggi sjúklinga skuli alltaf vera í forgangi.

Bóluefnin 26 eru á lokastigi rannsókna og eru nú prófuð á tugum þúsunda einstaklinga. Tilgangurinn er að greina virkni þeirra og möguleg eitrunaráhrif áður en hægt verður að leggja þau fram til samþykkis.

Meðal langt kominna rannsókna er sú sem unnin er við Oxford-háskóla í samstarfi við AstraZeneca og bóluefni líftæknifyrirtækisins Sinovac sem er verið að prófa á níu þúsund heilbrigðisstarfsmönnum í Brasilíu.

Auk þeirra stefna þýska fyrirtækið BioNTech og bandaríski lyfjarisinn Pfizer á að prófa sín bóluefni á allt að 30 þúsund ungum sjálfboðaliðum. Hið sama er uppi á teningnum hjá Moderna vestanhafs og kínverska fyrirtækið Sinopharm hefur prófað sitt efni á 15 þúsund manns í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Evrópusambandið hefur þegar pantað 300 milljón skammta af bóluefni sem er í þróun hjá franska lyfjafyrirtækinu Sanofi og Bandaríkjastjórn hefur boðist til að leggja fram ríflega tvær milljónir dala til frekari rannsókna á því.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin fylgist jafnframt með þróun 139 bóluefna til viðbótar sem eru enn á frumstigi rannsókna.