Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

25 fjölmiðlaveitur sóttu um sérstakan rekstrarstuðning

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
25 fjölmiðlaveitur hafa sótt um sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Þetta kemur fram í svari fjölmiðlanefndar við fyrirspurn fréttastofu. Umsóknarfresturinn rann út þann 7. ágúst síðastliðinn. Innan fjölmiðlaveitnanna eru þó fleiri en 25 fjölmiðlar.

Alþingi samþykkti þann 19. maí síðastliðinn heimild til mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að veita sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Stuðningnum er ætlað að stemma stigu við efnahagslegum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum.

Til að eiga kost á styrk þurfa fjölmiðlar að uppfylla ýmis skilyrði og samkvæmt reglugerð menntamálaráðherra getur hvert fjölmiðlafyrirtæki fengið allt að fjórðung af stuðningshæfum rekstrarkostnaði endurgreiddan, þ.e. af launakostnaði, verktakagreiðslum og kostnaði vegna miðlunar á fréttatengdu efni.

Til úthlutunar verða 400 milljón krónur og samkvæmt lögum skal úthlutun fara fram eigi síðar en 1. september 2020. 

Fjölmiðlanefnd gat að svo stöddu ekki veitt upplýsingar um heildarstyrksupphæðina sem sótt er um.