Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vill setja Ísland á rauðan lista hjá Norðmönnum

10.08.2020 - 19:23
Frá skimun ÍE á Akranesi hjá slembiúrtaki 2. ágúst 2020.
 Mynd: Almannavarnadeild ríkislögregl
Landlæknisembættið í Noregi hefur lagt til að Ísland ásamt fimm öðrum Evrópuþjóðum verði sett á rauðan lista. Það þýðir að íslenskir ferðamenn á leiðinni til Noregs þurfa að fara í tíu daga sóttkví við komuna. Landlæknisembættið horfir þar fyrst og fremst til nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa. Viðmiðið er 20 í Noregi en samkvæmt lista Sóttvarnastofnunar Evrópu er nýgengi smita nú 31,1 hér á landi og nálgast óðfluga Svíþjóð.

Hin Evrópulöndin eru Færeyjar, Pólland, Malta og Kýpur. Fram kemur á vef NRK að það sé síðan stjórnvalda að ákveða hvort farið verði að fyrirmælum landlæknisembættisins.  Íbúar frá sex héruðum Svíþjóðar þurfa einnig að fara í tíu daga sóttkví við komuna til Noregs sem og tveggja héraða í Danmörku.

Samkvæmt vef Isavia er ein ferð á dagskrá frá Keflavík til Óslóar þann 12. ágúst. 

Í tilkynningu á vef landlæknisembættisins kemur fram að vegna fjölgunar smita í þessum löndum telji það nauðsynlegt að þeim sé bætt á lista yfir hááhættusvæði. 

Aðeins eru fjórir dagar síðan listinn yfir hááhættusvæði var uppfærður. Þá slapp Ísland í gegnum nálaraugað og sagði sérfræðingur hjá landlæknisembættinu að Ísland hefði nokkra sérstöðu. Íslendingar væru fámenn þjóð og ekki þyrfti nema 40 til 60 smit til að nýgengistalan væri svona há.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV