Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvö fullorðin og níu börn drukknuðu í flóði í Panama

10.08.2020 - 00:39
epa03487397 A photo made available on 26 November 2012 shows an aerial view of a neighbourhood submerged in flood water in Chorrera, 30 kilometers from Panama City, Panama, 25 November 2012. According to reports, water filled homes to the roof, rivers burst their banks and shops were flooded. Five people are reported dead and at least 800 homes have been damaged by the storm.  EPA/STR
Þótt mannskæð flóð séu ekkimjög algeng í Panama eru þau langt í frá óþekkt þar í landi. Þessi mynd er frá árinu 2012 og sýnir bæinn Chorrera, um 30 kílómetra frá Panamaborg, á kafi í vatni. Fimm fórust í flóðunum og um 800 heimili skemmdust eða eyðilögðust í þeim og veðrinu sem orsakaði þau. Mynd: epa
Tvö fullorðin og níu börn úr sömu fjölskyldu drukknuðu í Panama í kvöld þegar asaflóð hreif hús þeirra með sér eftir að þau voru gengin til náða. Tveggja fullorðinna er saknað. Flóðið varð í ánni Bejuco í Veraguas-héraði, vestur af Panamaborg, þegar mikill og skyndilegur vöxtur hljóp í hana eftir skýfall.

Rigningasamt hefur verið í Panama og fyrr í dag vöruðu almannavarnir í Panama við stormi og úrhelli í flestum landshlutum. Ekki hafa þó borist fregnir af frekara manntjóni í veðurhamnum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV