Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þessir strákar dóu ekki til einskis“

Mynd: RÚV / RÚV

„Þessir strákar dóu ekki til einskis“

10.08.2020 - 13:37

Höfundar

Páll Óskar Hjálmtýsson minntist fallinna félaga, sem létust úr alnæmi, í þættinum Fjaðrafok sem sýndur var á RÚV á sunnudagskvöld og fjallar um sögu Gleðigöngunnar. Rifjar Palli upp þá fyrstu, sem gengin var árið 2000, og þakklætið sem hann fann þegar hann sá hvílíkur fjöldi var loksins mættur í bæinn til að styðja samkynhneigða og réttindabaráttu þeirra.

Landsmenn þekkja hin árlegu hátíðarhöld Hinsegin daga sem ná hámarki annan laugardag ágústmánaðar þegar Gleðigangan leggur af stað með tilheyrandi glimmeri, tónlist, skrautlegum búningum í bland við pólitísk skilaboð. Nú hefur gangan verið gengin í nær tvo áratugi og hefur hún þróast með réttindabaráttu homma og lesbía og síðar alls hinsegin fólks á Íslandi. Fyrstu gleðisporin voru gengin frá Hlemmi árið 2000 og nú tuttugu árum síðar frumsýnir leikstjórinn Hrafnhildur Gunnarsdóttir heimildaþáttinn Fjaðrafok sem fjallar um sögu göngunnar, saumsporin, sýnileikann, skipulagninguna, þróunina og þroskann.

Mynd með færslu
 Mynd: Hrafnhildur Gunnarsdóttir - Fjaðrafok
Það var blik í auga söngvarans þegar hann virti fyrir sér mannfjöldann

Páll Óskar rifjar þar upp fyrstu gleðigönguna þegar hann sigldi niður Laugaveginn í trukki með félögum sínum í Leðurklúbbnum, ákveðinn í að gleðjast og vera stoltur þó það yrði líklega fámennt í bænum. „Ég mun aldrei gleyma þessari göngu,“ segir hann. „Mér var skítsama þótt það væru tvö þúsund manns, bara nokkur sandkorn að fylgjast með. Ég vildi hreinlega þakka fyrir mig, þakka fyrir að við værum allavega komin þetta langt.“

Þegar gangan er að fara af stað verður Páli og öðrum þó ljóst að það eru ekki nokkur sandkorn á Laugaveginum. Við göngufólkinu blasti nefnilega fjöldi áhorfenda, um tólf þúsund manns, og bros úr hverju andliti. Þau sem gengu trúðu fæst sínum eigin augum. „Eftir allt sem á undan var gengið,“ segir Páll Óskar sem á þeirri stundu hugsaði sterkt til þeirra vina sinna sem látist höfðu í alnæmisfaraldrinum sem geisaði árin 1983-1995 á Íslandi og þá þöggun sem ríkti um sjúkdóminn og kynhneigðina á þeim tíma. Þeirri sorgarsögu eru gerð ítarleg skil í þættinum Plágan sem var hluti af Svona fólk-seríunni eftir Hrafnhildi.

„Mér varð hugsað til þeirra sem höfðu dáið og voru ekki á svæðinu. Það er akkúrat þá sem ég dreg djúpt andann og fann: Þessir strákar dóu ekki til einskis,“ segir Páll.

Fjaðrafok var á dagskrá RÚV á sunnudagskvöld klukkan 20:20

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Fyrstu gleðisporin tekin frá Hlemmi árið 2000

Menningarefni

Vildi ekki „kasta hjónabandinu á sorphaugana“

Kvikmyndir

„Ég lít ekki á mig sem neitt hinsegin“