Landsmenn þekkja hin árlegu hátíðarhöld Hinsegin daga sem ná hámarki annan laugardag ágústmánaðar þegar Gleðigangan leggur af stað með tilheyrandi glimmeri, tónlist, skrautlegum búningum í bland við pólitísk skilaboð. Nú hefur gangan verið gengin í nær tvo áratugi og hefur hún þróast með réttindabaráttu homma og lesbía og síðar alls hinsegin fólks á Íslandi. Fyrstu gleðisporin voru gengin frá Hlemmi árið 2000 og nú tuttugu árum síðar frumsýnir leikstjórinn Hrafnhildur Gunnarsdóttir heimildaþáttinn Fjaðrafok sem fjallar um sögu göngunnar, saumsporin, sýnileikann, skipulagninguna, þróunina og þroskann.