Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Pólverjar vilja neyðarfund í ESB vegna Hvíta-Rússlands

10.08.2020 - 09:30
epa08594455 A demonstrator stands in front of riot police during a protest after polling stations closed in the presidential elections, in Minsk, Belarus, 09 August 2020. Five candidates are contesting for the presidential seat, including the incumbent president Lukashenko.  EPA-EFE/TATYANA ZENKOVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Pólverjar vilja að ríki Evrópusambandsins komi saman á neyðarráðstefnu vegna stöðunnar í Hvíta-Rússlandi. Þar hefur úrslitum forsetakosninganna um helgina verið mótmælt.

Alexander Lúkasjenkó var endurkjörinn forseti í kosningunum. Hann hlaut um 80 prósent atkvæða sem greidd voru í kosningunum, samkvæmt opinberum niðurstöðum. Mótmælendur í Minsk telja að líklega hafi brögð verið í tafli í kosningunum.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, lætur hafa eftir sér í yfirlýsingu frá forsætisráðuneyti sínu að yfirvöld í Hvíta-Rússlandi hafi beitt valdi gegn borgurum sem krefjast breytinga. „Við verðum að styðja Hvítrússa í baráttu þeirra fyrir frelsi,“ segir Morawiecki.

Forsætisráðherrann hefur skrifað til æðstu yfirmanna í Evrópusambandinu og óskað eftir neyðarfundi. Samkvæmt upplýsingum þaðan er samtal hafið um alvarlega stöðu í Hvíta-Rússlandi. Stjórnvöld í Brussel leggja áherslu á að erfitt sé að staðfesta fregnir frá Hvíta-Rússlandi, enda séu þar upplýsingatakmörk og hægvirkt internet.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, skrifaði á Twitter í morgun að ofbeldi gegn mótmælendum væri ekki lausnin, og beindi orðum sínum til hvítrússneskra stjórnvalda.

Svetlana Tsíkhanovskaja, helsti mótherji Lúkasjenkó í kosningunum, sættir sig ekki við úrslitin og krefst þess að stjórnvöld láti stjórnartaumana til stjórnarandstöðunnar. „Í gær völdu kjósendur en stjórnvöld hafa ekki heyrt í okkur, þau hafa slitið sig frá þjóðinni, “ sagði Tsíkhanovskaja á fréttafundi eftir að lögregla hafði leyst upp mótmælin í nótt. „Ég tel mig vera sigurvegara þessara kosninga.“

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV