Nær 100.000 börn greindust með COVID-19 á tveimur vikum

10.08.2020 - 04:45
epa08590771 People wait in line outside of DC Fire and EMS Station 10 for a coronavirus test in Washington, DC, USA, 07 August 2020. The DC government has opened at least 13 walk-up or drive-thru testing sites, 5 of them free, for city residents who are experiencing covid symptoms or have come into contact with someone who has tested positive.  EPA-EFE/SAMUEL CORUM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Nær 100.000 börn í Bandaríkjunum greindust með COVID-19 síðustu tvær vikurnar í júlí. Frá þessu er greint á vef New York Times og vísað í skýrslu Bandarísku barnalæknaakademíunnar og Samtaka bandarískra barnaspítala. Í skýrslunni segir að nær 339.000 börn hafi greinst með kórónaveiruna í Bandaríkjunum frá því að farsóttin hóf þar innreið sína. Þar af hafi meira en fjórðungur, eða um 97.000 börn, greinst með veiruna síðustu tvær vikurnar í júlí.

Mikil áhersla á að hefja skólastarf

Farsóttin geisar enn af miklum þunga í Bandaríkjunum. Engu að síður er kennsla að hefjast að nýju í skólum flestra ríkja, enda leggur ríkisstjórnin, með Donald Trump í fararbroddi, mikla áherslu á að skólahald verði með sem eðlilegustum hætti í haust. Forsetinn hélt því nýverið fram að börn væru svo gott sem ónæm fyrir veirunni og því væri fullkomlega óhætt að opna skólana og hefja kennslu á ný. 

Flest smitin í suður- og vesturhluta landsins

Samkvæmt skýrslunni, sem byggð er á gögnum alstaðar að af landinu, greindust yfir 70 prósent smitanna í ríkjum í sunnan- og vestanverðum Bandaríkjunum. Fram kemur að fjöldi smitaðra barna gæti verið enn meiri, þar sem gögnin frá Texas og New York-ríki utan New York-borgar, voru ekki tæmandi.

Í liðinni viku mótmæltu kennarar í nokkrum ríkjum áformum um að opna skólana að nýju og víða hafa foreldrar skólabarna líka látið áhyggjur sínar í ljós.

Alls hafa rúmlega 5 milljónir greinst með kórónaveirusmit í Bandaríkjunum til þessa og nær 163.000 dáið úr sjúkdómnum. Enn greinast um 50.000 ný smit á degi hverjum og um 1.000 manns bætast daglega í hóp hinna látnu. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi