Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Mjög fáir með umtalsverð einkenni“

10.08.2020 - 17:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
„Það eru mjög fáir sem eru með umtalsverð einkenni. Af þeim sem eru með staðfest smit eru langflestir þeirra með mjög væg sjúkdómseinkenni,“ segir Runólfur Pálsson, yfirlæknir COVID-19 göngudeildar Landspítalans. Ekki megi þó gleyma því að þegar komið er 7 til 10 daga frá veikindum geti sjúklingum snöggversnað. Það hafi hins vegar ekki verið mikið um það í þessari nýju bylgju faraldursins.

Þrír liggja nú inni á Landspítalanum með COVID-19. Karlmaður á þrítugsaldri er í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans. Tveir sjúklingar, annar á tvítugsaldri en hinn á níræðisaldri, eru á legudeild.

Rúmlega 66 prósent þeirra sem hafa greinst með COVID-19 undanfarna daga eru á aldrinum 13 til 40 ára.  Þá er eitt barn í einangrun með staðfest smit.

Runólfur segir að í ljósi þess hversu væg einkennin hafa verið hjá þeim sem hafa sýkst að undanförnu hafi ekki reynst nauðsynlegt að hitta jafn marga á göngudeildinni og áður.  Ekki sé hringt daglega í þá sem eru með mjög væg einkenni en þeir hafi opna línu á göngudeildina sem er opin alla daga.Hægt sé að grípa fljótt inn í ef einkennin taka að versna.

Fá smit hafa greinst undanfarna daga og nánast undantekningarlaust hafa þeir sem eru jákvæðir þegar verið í sóttkví. „Það gefur ákveðna von og við erum bjartsýn en vitum líka að það getur allt gerst.“

Athygli hefur vakið að tveir af þeim sjúklingum sem hafa þurft á innlögn að halda eru ungir. Runólfur segir að þetta gefa ákveðna ástæðu til að minna á þessi sjúkdómur sé hættulegur. Engar fullnægjandi skýringar séu á því af hverju þetta sé að gerast frekar núna en í vor. Þetta geti verið magn veiru sem fólk fái þegar það smitast eða samspil veirunnar og ónæmisviðbragða líkamans.

Í því ljósi sé mikilvægt að minna fólk á einstaklingsbundnar sýkingavarnir því veiran geti alltaf borist af og til inn í landið frá útlöndum. „Þessar varnir skipta höfuðmáli og það verða allar að venja sig á að vanda þær.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV