Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fjórtán mál á borði ríkissáttasemjara

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjórtán kjaradeilur eru nú á borði ríkissáttasemjara, þrjár bættust við í júlí og boðað hefur verið til fundar í tveimur deilum í vikunni. Fundur verður í deilu Sjúkraliðafélags Íslands og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu á morgun, sem einnig fundar með Sameyki á miðvikudaginn.

Þau þrjú mál sem bættust við í síðasta mánuði eru kjaradeila tæknifólks innan Verkfræðingafélags Íslands við Landsnet, deila sex stéttarfélaga í álveri Rio Tinto í Straumsvík og deila Félags vélstjóra og málmtæknimanna sem starfa hjá Hafrannsóknarstofnun við ríkið.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkissáttasemjara er nú til skoðunar að halda sáttafundi í gegnum fjarfundabúnað og fækka þeim sem koma að samningaborðinu, þannig að ekki verði þar fleiri en þrír frá hvorum aðila.